Súkkulaði & Surtur, hvað getur farið úrskeðis?

0
75

Súkkulaði & Surtur, hvað getur farið úrskeðis? Ekki mikið, reyndar er Surtur einstaklega góður bjór þegar kemur að því að para með súkkulaði.

Surtur er þessi bjór sem þú finnur aftan á matseðlinum á einstaklega fínu veitingahúsi sem eftirréttur, þá án efa paraður með feitri súkklaði köku, súkkulaði fontant, eða eins og í þessu tilfelli, Omnom súkkulaði!

Já, Bjórspjall fór á pörun hjá Omnom og Borg Brugghús skaffaði bjórinn Surt, einn af bestu Imperial Russian stout bjórum á þessu jarðríki (algerlega mitt álit en mæli með því að aðrir séu sammála mér… því ég hef rétt fyrir mér… *hóst*).

Í boði voru Surtur;

  • Nr. 73, Kókos-romm tunnuþroskaður
  • Nr. 61, Rye Whisky og Bourbon tunnu þroskaður 12.1% alc./vol.
  • Nr. 8.2, Bourbon-tunnu lþroskaður 14.5% alc./vol.
  • Nr 8.8, Bourbon og Cognac tunnu þroskaður 13.6% alc./vol.
  • Nr. 30, taðreykt maltað bygg 9% ALC./VOL.

Pörunin byrjaði á smá hressingu, sem var verðlaunabjórinn frá Borg Brugghús, Bríó Nr 1 og 10 tegundir af handverk súkkulaði.

Ekki leið á löngu þar til við hófum leikinn og var þá smá keppni á milli Omnom og Borg Brugghús. Höfðu þeir sett það súkkulaði sem þeim fannst passa við hvern Surt fyrir sig. Var þá Borg Brugghús til vinstri og Omnom til hægri.

Það skal alveg viðurkennast að ég er enginn sérfræðingur í að para mat með bjór, en svo aftur, þá er það mjög misjafnt á milli hvers og eins hvað þykir gott, en svona fór mitt álit alla vega og ég hvet alla til að verða sér um nokkra Surta + Omnom og smakka sjálf.

Byrjað var á Surt Nr. 73, sem Borg hafði parað með Milk of Madagascar og Omnom með Sea Salted Almond Milk. Persónulega fannst mér Milk of Madagaskar hafa betur.

Surtur Nr.  61 var næstur og var búið að para hann með Lakkrís + Rasberry og Nicaragua 73%. Lakkrís + Rasberry öskraði hreinlega á við bjórinn og tók algerlega yfir, Nicaragua 73% varð því fyrir valinu.

Surtur Nr. 8.2 var paraður með Caramel + Milk og Black n’ Burnt Barley. Þetta var mjög skemmtileg pörun því Black n’ Burnt Barley er með carafa 3 malt sem samsvarar auðvitað bjórnum mjög vel, það kom því ekkert annað til greina með þessum æðislega bourbon tunnu þroskaða nammi.

Surtur Nr 8.8, Nicaragua 73% var enn og aftur fyrir valinu, enda æðislegt súkkulaði en að þessu sinni var það Borg brugghús sem valdi það þar sem Omnom hafði gert tilraun með það áður með Surt Nr. 61.  Coffee + Milk var svo valið af Borg Brugghús sem hafði betur að þessu sinni.

Surtur Nr. 30 er pínu sérstakur þar sem hann er bruggaður með með taðreyktu byggi. Það er óhætt að segja að Surtur Nr. 30 sé ekki fyrir alla en fyrir þau sem elska reyktan mat, t.d hangikjöt og s.frv eiga eftir að finna honum stað í matarhaldinu. Surtur Nr. 30 var svo paraður með Lakkris+Sea Salt og Milk Of Nicaragua. Ég átti pínu erfitt með mig þarna þar sem reykurinn í Surt Nr. 30 er pínu yfirþyrmandi, en komst þó að þeirri niðurstöðu að Milk of Nicaragua hafði betur.

Niðurstaðan var því sú að Borg Brugghús var með 2 vinninga og Omnom 3, Omnom hafði því betur að þessu sinni, alla vega í mínum bókum.

Inn á milli þess sem við smökkuðum, þá var tekin smá göngutúr í gegnum versksmiðjuna.

Ég vissi að það væri list að búa til súkkulaði en hafði ekki hugmynd um hversu svakaleg sú list er. Eins og með bjórinn, þá veltur þetta allt á réttu hitastigi, tíma, hráefni og svo miklu meiru. Þetta eru viðkvæm fræði sem mjög gaman er að fræðast um.

Eins og með allar bjór smakkanir, þá voru klósett ferðirnar ekki ófáar, sem er svo sem ekki frá sögu færandi nema, inn á einu klósettinu er verðlauna plagg. Taldi ég það vera til marks um að þau væru svo hógvær, að verðlaunin væru ekki það sem væri aðal málið. Mér hefði ekki getað skjáltlast meira því, þegar ég sté út af klósettinu, þá blasti við mér heill veggur af verðlaunum, þau höfðu hreinlega runnið út á plássi og var þá næsti veggur, sem var klósettveggurinn, tekinn við.

Þau hafa unnið sér til margra verðlauna og er óhætt að segja að það endurspeglast í súkkulaðinu, það er hreint út sagt, ótrúlegur metnaður í því sem þau gera.

Omnom fær svo allt sitt starfsfólk til að búa til sína útgáfu af súkkulaði, sem verður oft að æði skemmtilegri tilrauna starfsemi. Starfsfólkið fær svo að smakka allt súkkulaði sem kemur úr tilrauna eldhúsinu áður en það fer áfram til viðskiptavinarins. Ef það leynist í þér súkkulaði nörd, þá er kannski næsta starfstækifæri hjá Omnom.

Það er mikil list sem fer í allt ferlið hjá Omnom. Fyrir mitt leiti, þá kvarta ég ekki yfir verðlaginu aftur, enda hefur það lækkað töluvert eftir því sem þau hafa stækkað.

Ef ég fengi einhverju um ráðið, þá yrði gefin út viðhafnar útgáfa af Omnom og Surt, þar sem Surtur er greyptur inn í súkkulaðið og gefinn út sem páskaegg fyrir bjór nörda, því eins skrítið og það er að Surtur hafi verið gefinn út sem Þorra bjór, þá sómir hann sér mun betur sem páskabjór, eða það er alla vega mitt álit, hvað finnst þér?

Við hér Bjórspjall mælum eindregið með þessu viðburði, þetta er alger skylda fyrir bjór unnendur og súkkulaði nörda, gerist hreinlega ekki betra!

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt