Samruni risana

0
436

Ég settist niður og fór að afla mér heimilda fyrir þennan pistil þegar að ég sá fréttir af mögulegum kaupum Anheuser-Busch InBev félagsins á SABMiller. Hvað myndi þetta gera fyrir bruggiðnaðinn? Ég þori ekki að fara með það, allar hryllingssögurnar sem áttu að fylgja kaupum InBev á Anheuser-Busch – eða var þetta samruni, maður hefur heyrt af samsæriskenningum með það. En hvernig sem það er, til að setja þetta í samhengi, ímyndið ykkur ef Vífilfell, Ölgerðin og Bruggsmiðjan Árskógsströnd (Kaldi) myndu sameinast. Þau áhrif á Íslandi eru áhrifin sem yrðu í Bandaríkjunum.

Það má eiginlega segja að 4 risar hafa sameinast í tvo, en hvaðan koma þeir? Anheuser-Busch er stofnað 1860 (1852 er forverinn stofnaður) í St. Louis í Bandaríkjunum og þeirra merki er Budweiser, fyrst bruggaður 1876 (reyndar í Bandaríkjunum er réttara að tala um Bud Light í þessu samhengi en hann er söluhærri). Anheuser-Busch hélt 48,5% hlutdeild í Bandaríkjunum. InBev er svo samruni Interbrew samsteypunnar og AmBev. AmBev er risinn í Suður-Ameríku, stofnað sem slíkt 1999 en aðal bjórar þeirra eru Brahma (1888) og Antarctica (1885). Þegar að samruni þeirra átti sér stað yfirtóku þeir brasilískan markað þar sem að þriðji stóri aðilinn, Kaiser, veiktist mjög fljótlega náði AmBev rúmlega 80% markaðshlutfalli í Brasilíu. Interbrew er okkur nánari, sem framleiðandi Stella Artois, Hoegaarden og Leffe. Yfirmenn AmBev tóku við stjórn fljótlega við samruna AmBev og Interbrew.

Auglýsing

SABMiller er svo samsteypa suður-afrískra brugghúsa og Miller brugghússins frá Bandaríkjunum. SAB var stofnað 1895 sem félag suður-afrískra bruggara og þekktast fyrir Castle Lager (1895). Í Suður-Afríku er einokun lögleg og viti menn, SAB nýtti sér það en sumar heimildir segja að þeir hafi tekið 99% af markaðnum til sín. Miller er svo eldgamalt, eða frá 1855, þeirra þekktasti bjór á Íslandi er Miller Genuine Draft (1985) en þekktastir fyrir Miller High Life frá byrjun síðustu aldar. SABMiller tók sér höfuðstöðvar í London og stendur nú í öðru sæti á Bandaríkja markaði. Ekki nóg með þetta, heldur tilkynntu SABMiller og Coors samstarf í Bandaríkjunum sem gaf af sér MillerCoors með það í huga að ráða betur við Anheuser-Busch InBev. Hvað er þetta Coors þá? Coors, eða MolsonCoors er samruni tveggja risa, Molson frá Kanada og Coors, þriðja stærsta af bandarísku keðjunum. Enn einn samruninn til að berjast við ABInBev (og SABMiller). Gáfu þeir upp góðan hagnað í framhaldi af þessu og einnig varð CoorsLight söluhæsti bjór Kanada í fyrra. Voru þeir aðeins hársbreidd frá Labatt (númer 1 í Kanada) í sölu en sá er í eigu ABInBev keðjunnar. Nú í lok september var samningur við Foster´s að nást. Samningurinn nær reyndar aðeins yfir bjórinn sem við þekkjum og nokkrar undirtegundir en Foster´s losaði sig við víndeild sína fyrir stuttu (mögulega til að auðvelda kaupin?) Eftir nokkrar vikur af undirboðum var tilboði uppá 10,2 milljarða dala samþykkt. Þetta þýðir að í lok árs mun um 50% af markaðshlutdeild Ástralíu sameinast SABMiller, nema að Foster´s taki hærra boði fyrir þann tíma, en þá þarf Foster´s að borga gríðarlega háa uppbót til SABMiller. Þetta mun fela í sér að Miller mun sjá um bruggun fyrir Bandaríkjamarkað, en Foster´s er samningsbruggaður í 12 löndum víðsvegar um heiminn. Heineken sá um bruggun á honum fyrir Evrópumarkað, ekki er víst hvort það verði fellt niður, hef ekki fundið staðfestingu um það. En mjög líklegt þar sem SABMiller er með höfuðstöðvar í Evrópu.

Anheuser-Busch InBev samruninn. Belgísk-brasilíski risinn InBev keypti Anheuser-Busch fyrir 52 milljarða dollar árið 2008. Kaupin gengu þó ekki snurðulaust fyrir sig, dómsmálaráðuneytið kom á milli og þurfti InBev að láta af hendi Labatt fyrir Anheuser-Busch. Var þetta þó þannig að stofnað var þriðja-aðila fyrirtæki í kringum Labatt til sölu í Bandaríkjunum, Labatt USA og er Labatt því enn í eigu ABInBev. Minnstu munaði þó að það var ekki eina sem dómsmálaráðuneytið þurfti að skipta sér að. Salan var lögð á ís og kannað var hvort að kaupin myndu hafa slæm áhrif á verð í nokkrum fylkjum en niðurstaðan varð sú að Stella Artois og Budweiser áttu sitthvorn markhópinn og ætti þetta ekki að skaða. Allt að 50% markaðshlutfall var eitthvað sem hræddi ráðuneytið. En þegar að kaupin gengu í gegn og Anheuser-Busch InBev var stofnað myndaðist stærsta bruggsamsteypa heimsins og eru kaupin ein þau stærstu í sögunni. Eftir gott fyrsta ár í innkomu og sparnaði var þau seinni hluti 2009 og 2010 ekki eins og óskast var.

En eru þessir risar í alvöru að fara sameinast eftir allt sem þeir hafa gert til að berjast við hvorn annan? Þetta er allavega ekki staðfest og er í undirbúning í besta lagi. En af hverju eru nokkrir af fremstu sérfræðingum Bandaríkjanna svona vissir um að þetta muni gerast? Er það eins gráðugt og hvað næst? Hvað sem það er þá myndi þetta gefa betri fótfestu og nýja markaði. SABMiller er t.d. með mjög góða fótfestu í latnesku Ameríku í gegnum tegundir eins og Club Colombia (sem sögur herma að komi kannski í sölu hér), Aguila og Atlas. Svo ekki sé talað um Afríku þar sem að SABMiller er með lygilegt markaðshlutfall. SABMiller kemst svo inná annan markað í Suður-Ameríku þar sem að ABInBev hefur einokað Brasilíu og Mexíkó, myndu tröllríða Bandaríkjunum og ABInBev hefur náð föstu taki á Asíu markaði, annað en SABMiller . Asíski markaðurinn og sér í lagi sá kínverski þykir einn mest hratt vaxandi markaður heims í dag. Þrátt fyrir að vera í gríðarlegri samkeppni, en 80% bjórsölu í Bandaríkjunum stílast á þá, sýna samt innkomutölur hvað þessir risar eru að taka hagnað sinn frá sitthvorum markaðnum, 54% hjá ABInBev frá Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu en 69% hjá SABMiller utan Norður-Ameríku og Evrópu. En þessi 80% segja okkur samt að það þyrfti eitthvað að „fiffa til“ svo þetta myndi ganga í gegn, eins og InBev gerði með Labatt þegar þeir keyptu Anheuser-Busch. Líklegast væri það gert með því að SABMiller myndi selja Coors sinn hluta í MillerCoors, forsvari þeirra í Bandaríkjunum, á áætlaða 9 milljarða dollara en MillerCoors hefur 29% markaðshlutfall í Bandaríkjunum. Þetta gætu þeir gert samkvæmt samning árið 2013 en einmitt þykir ólíklegt að nokkurskonar samruni ABInBev og SABMiller muni gerast fyrr en fyrsta lagi þá, eða fyrr en ABInBev nær að rétta aðeins af skuld eftir kaupin 2008. Þeir eru þó á undan áætlun með það og ættu mögulega að vera í stöðu til að skrifa ávísun uppá a.m.k. 80 milljarða dollara innan nokkurra ára, sem væru stærstu peningaviðskipti sögunnar.

En það hlýtur að vera eitthvað slæmt við þetta? Menn eru auðvitað hræddir við þessa mögulegu einokun. Myndi svona stór samsteypa nokkuð þurfa þriðja aðila til dreifingar á bjórnum? Gæti einhver hráefnisframleiðandi ráðið nokkru í samningaviðræðum, myndi samsteypan ekki bara stjórna sínu kaupverði sjálf? Myndi þetta minnka úrval, þegar að svona stórar samsteypur verða til eru oft tegundir dæmdar til að fara í framleiðslustopp. Í þeirri pælingu myndi ekki fullt af fólki missa vinnuna út af lokun bruggsmiðja? Það er auðvitað til dæmi um það, en áhugaverðara er þegar að InBev tók yfir Hoegaarden í Belgíu. Þá var lokað verksmiðjunni og reynt að færa starfsemina en sökum gífurlegrar pressu frá neytendum var starfsemin færð aftur í gamla húsið og fjárfest háum fjárhæðum í nýjum búnaði. Ég get reyndar ekki svarað þessu strax en ABInBev gaf það út eftir samruna þeirra að þeir myndu alls ekki loka verksmiðjum þá og trúi ég því ekki að það myndi gerast í þessu tilfelli. Myndi þetta bitna á hinni svokölluðu „craft“ bjór hreyfingu? Mögulega ef þriðja aðila netið myndi veikjast og líklegt er að humla og maltaðgengi myndi skerðast en það er nú þegar skortur af því hráefni í heiminum. Og síðasta pælingin, hvenær er samsteypan orðin það stór að hún fer að taka til sín litlu brugghúsin og mögulega troða fingrum sínum í „craft“ bjór menninguna en AB-InBev gleypti um daginn bandaríska „craft“ brugghúsið Goose Island.

Örfáir sérfræðingar hafa otað þeirri hugmynd fram að Heineken Group ætli jafnvel að fljóta með í þessari samsteypu og Diageo Group þykir afar líkleg til samruna, hvort sem er í risasamsteypuna, Heineken eða Carlsberg samsteypuna. Paul Walsh, framkvæmdastjóra Diageo hefur gefið út í fjölmiðla gífurlegan áhuga sinn á samruna við stærri samsteypu. Heineken stækkaði gífurlega í fyrra þegar að þeir gleyptu FEMSA Cerveza samsteypuna frá Mið-, og Suður Ameríku. Kaupin voru þó mjög áhugaverð þar sem að engin peningaviðskipti urðu, heldur urðu eignarhafa FEMSA, næst stærsti eignarhafi Heineken, á eftir fjölskyldunni. FEMSA er framleiðandi mexíkóska SOL, Dos Equis, Kaiser og fleiri.

Gerir fólk sér grein fyrir hvað þessar samsteypur stjórna miklu og hversu margar tegundir eru á þeirra bandi. Ég ætla að taka þær tegunir sem fást á Íslandi sem heyra undir þessa risa. Eflaust gleymi ég einhverjum og nefni einnig fræg vörumerki sem hafa (ef ég man rétt) verið í sölu hér. Byrjum á Diageo Group sem hefur Guinness, Kilkenny, Red Stripe sem og tegundir úr eldra vöruvali, Harp, Tusker Lager og Windhoek.
Færri en maður heldur vita að Carlsberg á Tuborg! En undir Carlsberg Group heyra einnig tegundir eins og San Miguel, Svyturys og Saku og svo eldri vinir, Kronenbourg, Falcon, Baltika, Holsten og svo Mythos.
Heineken hópurinn á nokkrar tegundir. Auðvitað Heineken og Amstel, Zywiec, Birra Morretti, Krusovice og Murphy´s.
Nú, SABMiller. Þar höfum við Grolsch og Pilsner Urquell auk Miller Genuine Draft. Castle Lager, Tyskie, Lech, Nastro Azzurro og Club Colombia,
Anheuser-Busch InBev er svo auðvitað Budweiser, Stella Artois, Beck´s, Brahma, Tsingtao, Jupiler, Leffe, Hoegaarden, Staropramen, Löwenbrau, Corona (eiga 50% í Modelo Group), Diebels og Franziskaner. Það eru bara einfaldlega rosalega margar tegundir sem heyra undir fimm aðila, ágætis líkur að tvær þeirra sameinast og hreinlega líklegt að af þessum fimm muni bara standa eftir 2-3 samsteypur innan nokkurra ára ef getgátur sérfræðinga eru réttar.

Mig langar að skrifa smá pistil hér með. Ótengt greininni en tengt bandarísku risabjórunum. Nýlega var gefin út skýrsla með sölutölum fyrir 2006-2010 og athyglivert var að sjá hve mörg stór nöfn hafa hrunið í sölu. Lite-bjórar og „craft“ bjórar hafa flestir hækkað í sölu. Budweiser hrundi um 30% í sölu, sem er rosaleg tala þegar maður pælir í raunmagni, 7 milljón tunnum minna. Miller Genuine Draft hrundi um 51% á milli ára en hann hefur nær órufið dottið hægt og rólega niður í sölu frá árinu 1992. Aðrir bjórar sem féllu um meira en helming í sölu eru Old Milwaukee frá MillerCoors (-52%), Milwaukees Best (-53%), Bud Select (-60%) frá Anheuser-Busch InBev og Michelob bræðurnir Michelob Light (-64%) Michelob (-72%) frá AB InBev. Smá svona til að vekja mann til umhugsunar.

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt