Saga bjóríláta – gler eða dós?

0
365

Glerflöskuna sem bjórílat má rekja aftur á 16. öld. Fræg þjóðsaga er í kringum uppruna flöskunnar, eins og algengt er þegar að uppruni er ekki þekktur með vissu. Aðalhetja þjóðsögunnar er Dr. Alexander Nowell. Nowell sá var sóknarprestur í bresku þjóðkirkjunni, heimabruggari og veiðimaður. Gæti það verið betra á þessum tíma? Alexander fór víst í einni af sínum veiðiferðum með heimabrugg meðferðis. Hann notaði í þetta skiptið glerflösku til að geyma sullið. Vitandi að hann kæmi aftur fljótlega skildi hann nokkrar flöskur eftir til að létta sér burðinn og viti menn, nokkrum dögum seinna kom hann að flöskunum í fínu lagi og meira að segja hafði myndast kolsýra í flöskunni þökk sé seinni gerjun á flösku.

Fyrstu ummerki flöskutöppunar fyrir staðbundin brugghús má rekja til seinni hluta 17. aldar. Talið er þó að á 16. öld hafi bruggarar verið byrjaðir að gera tilraunir með glerflöskur til töppunar. En eins og með fyrstu dósirnar, var þrýstingsþol mikið vandamál hjá flöskunum. Á þessum tíma voru allar flöskur handgerðar, handblásnar og voru einfaldlega ekki nægilega sterkar. Ráð við þessu fyrir heimabruggara var að geyma flöskurnar í sand upp að háls, en það er nú greinilega bara tímabundin lausn.

Auglýsing

Í dag hefur glerflaskan stimpil gæða og glæsileika, sérstaklega þegar borinn saman við dósina. En öfugt var upp á teningunum á 17. öld þar sem að Thomas Tryon skrifar árið 1691 í bók sinni „A New Art of Brewing Beere“ og endurbirt í bókinni „A History of Beer and Brewing“ eftir Ian Spencer Hornsey:

„It is a great custom and general fashion nowadays to bottle ale; but the same was never invented by any true naturalist that understood the inside of things. For though ale be never so well wrought or fermented in the barrel, yet the bottling of it puts it on a new motion or fermentation, which wounds the pure spirits and . body; therefore such ale out of bottles will drink more cold and brisk, but not so sweet and mild as the same ale out of a cask, that is of a proper age: besides the bottle tinges or gives it a cold hard quality, which is the nature of glass and stone, and being the quantity is so small, the cold Saturnine nature of the bottle has the greater power to tincture the liquor with its quality. Furthermore, all such bottle drinks are infected with a yeasty furious foaming matter which no barrel-ale is guilty of … for which reasons bottle ale or beer is not so good or wholesome as that drawn out of the barrel or hogshead; and the chief thing that can be said for bottle-ale or beer, is that it will keep longer than that in barrels, which is caused by its being kept, as it were, in continued motion or fermentation.“
A history of beer and brewing – Google books

Búið var að finna lausn á vandamálum flöskunnar þegar Thomas Tryon skrifaði þetta en samt var flaskan aðeins í örlítilli uppsveiflu næstu tvær aldir. Flaskan var munaðarvar og þurfti yfirleitt að setja korkinn í með höndunum. Árið 1845 var svo afnuminn glerskattur í Bretlandi og þá fór að sjást gríðarlega uppsveifla í notkun glers. Svo mikil að oft var þriggja tölu fjöldi starfsmanna að vinna allan sólarhringinn við það eitt að setja kork í flöskurnar, þekkt dæmi í bruggrisa London, Whitbread. Árið 1879 fann Englendingurinn Henry Barrett upp skrúftappann.

Síðan þá og sérstaklega eftir fyrri heimsstyrjöldina hefur glerflaskan verið á upprisu, fallið og risið aftur í stöðugri baráttu við kúta.

Dósin á aftur á móti styttri sögu. Bjórdósin á tilveru sína Bandaríkjunum að þakka. Árið 1909 reyndi fyrsta brugghúsið að nota dós undir bjór en var þar hið erfiða vandamál með kolsýru og þrýsting bjórsins . 20 árum seinna eru stærstu brugghús Bandaríkjanna farin að fikta með dósir undir bjór. Hérna voru dósirnar úr stáli, með flötum topp og þurfti að opna þær með dósaupptakara.

Á fjórða áratug síðustu aldar tókst fyrirtækinu American Can að hanna dós sem þoldi þennan auka 5,5 bar þrýsting (80 PSI) með því að setja þynnu (Vinylite) innan í dósina sem styrkti saum dósarinnar. Ekkert stóru brugghúsanna þorði að taka áhættu með dósina strax og var það Virginia bruggarinn Krueger sem tók áhættu með prufum árið 1933. Það borgaði sig og í byrjun árs 1935 voru þeir farnir að selja a.m.k. tvær tegundir í dósum í fylkinu. Pabst fylgir þar á eftir og svo koma brugghúsin í röðum á eftir dósum.

Auðvitað er samt ekkert fullkomið strax í þessu og voru töppunarlínur fyrir dósir svo dýrar að þróa þurfti sérstakan topp á dósir sem minnti á háls glerflösku og voru þessar „conetop“ dósir fyrst seldar af Schlitz brugghúsinu árið 1935. Þrem árum seinna verður svo bjórkippan til. Tvær ástæður, fullkomin þyngd fyrir konur að bera heim og svo leiðinlega ástæðan sem er líklegri til að vera sönn, Coca-Cola var með kippur af sex.

Stór glufa er oft í frásögnum af sögu bjórdósarinnar. Flestar síður og heimildir taka fram árið 1958 eða 1959 sem fyrsta ár áldósarinnar og eru ýmist risinn Coors eða brugghúsið frá Hawaii, Primo, titluð sem fyrsta brugghúsið sem notaði áldós. Sumsstaðar er jafnvel bara sleppt því að tala um þetta risastóra skref í þróun bjórdósarinnar. Samkvæmt því sem ég fæ best séð er það Primo sem á allra fyrstu áldósina fyrir bjór. Sagan segir að þeir voru að fagna stóru skrefi í stækkun brugghússins með því að setja bjór í dós í fyrsta skiptið en dýrt var að flytja inn hefðbundna dósastálið til Hawaii. Léttari málmur var svarið, ál. Skemmtilegt er að þeir gerðu sínar fyrstu tilraunir hjá Coors! Allt gekk vel, risastór verksmiðja var byggð í Hawaii fyrir þetta og ný tækni til að opna lokið var á þessum dósum (allt lokið fór af). Stórhuga, ekki spurning. En eitthvað klikkaði. Fóðrunin var ekki rétt hönnuð og framkvæmd, dósirnar tóku að springa og á endanum þurfti að hella 23,000 kössum eða rúmlega 180,000 lítrum (sem er nær tvöföld ársframleiðslugeta smábrugghúss eins og Borg brugghúss) í ræsið. Ekki þarf snilling að sjá að þetta og orðasporáfallið þýddi endalok Primo áður en langt um leið. Þetta er árið 1958 og nokkrum mánuðum seinna, í byrjun árs 1959 tekur Coors að selja bjór í áldósum. Áldósum sem springa ekki…

Hvað gerðist merkilegt árið 1969? Led Zeppelin gefur út plötuna I, Mario Puzo gefur út Guðföðurinn, Neil Armstrong stígur á tunglið (eða hvað?) og Monty Python hópurinn fæðist til að nefna nokkra menningarlega hluti, sem og, bjórdósin selst í meira magni en bjórflaskan í fyrsta skipti, eða eins og segir í „Yuengling: A History of America´s Oldest Brewery“, „Canned beer continued to grow in popularity, and, by 1969 it would outsell bottled beer.“

Fyrst vorum við með stáldósir úr þremur einingum, um miðja öldina tveggja hluta áldósir, og eftir 1960 fara að vera framfarir í opnunaraðferðum á dósinni eftir að „cone-top“ dósirnar dóu út um það leyti. 1963 er fyrst notað togflipa á dós.

Hver er svo munurinn á þessum tveimur umbúðum, hvað kosti og hvað galla hafa þær? Ég ætla bara koma mér strax að efninu. Ég skil ekki þetta hatur á dósum!

Yfirleitt er þetta þannig að glerið á að hafa hitt og þetta fram yfir dósina, en glerflaskan þykir án efa mun fínni og flottari. Glerið hefur allavega pottþétt útlitið yfir dósina, en falleg dós verður aldrei eins girnileg og falleg flaska.

Oft heyrir maður að það sé bragðmunur á að bjór úr dós eða flösku. Það er hugrænt og ekkert annað. Það er algjör undantekning að brugghús bruggi bjór sérstaklega fyrir flösku eða dós, þó það sé breytt bjór fyrir kúta. Þá er sagt að það sé málmbragð af bjórnum úr dós. Það er ekki heldur rétt þökk sé nær fullkominni fóðrun innan á dósinni nú til dags. Fyrir þá sem kaupa þetta ekki, blindsmakk á sama bjórnum úr flösku og dós, helst tvær til þrjár tegundir. Ef þú nærð að nefna hvort er gler og dós fyrir allar þrjár tegundirnar, þá máttu væla út af þessu. Það sem getur verið, er að þú ert að drekka beint úr dósinni og þá er möguleiki að fá málmbragð af toppnum á dósinni þegar maður kyssir flipann, en drekkur maður ekki hvort eð er alltaf úr glasi?

Á pappír hljómar dósin betur en orðsporið gefur til kynna. Dósin kælist hraðar, en hitnar reyndar hraðar líka. Dósin er léttari, fyrirferðaminni og engin hætta á glerbrotum, þó hægt sé að skera sig á dósinni líka. Stórt atriði fyrir mig. Það er ekki séns að fá ljóssprengdan bjór eftir töppun á dósir og nær ómögulegt er að súrefni komist í dósina en tappi á glerflösku losnar með tímanum. Auðveldara er að stafla dósum og geyma.

Hvaða áhrif hafa þessar umbúðir annars á umhverfið? Framleiðsla áls. Ál er til í miklu magni og því er ekki verið að klára frumefni sem til er í takmörkuðu magni. Aftur á móti fer gríðarlega mikil orka (olía) í framleiðslu á áli. Framleiðslan skilur mikið eftir sig, fimmföld þyngd af ætum úrgangi og notast framleiðslan við um 3% af rafmagnsframleiðslu heimsins. Svo er talið að árið 2005 hafi 500 milljónir dósa endað á haugunum, sem var um helmingur af seldum dósum. Aftur á móti er það þannig að u.þ.b. 50% af áldósum eru endurunnar, það þarf 95% minni orku að endurvinna ál en framleiða það og það gefur af sér 95% minna af skaðlegum gastegundum. Um 40% af hverri dós er endurunnið ál. Ef þú tekur eitt kg af endurunnu áli, færðu úr því tæplega 80 dósir sem geta verið komnar aftur í hillur á tveimur mánuðum. Ein endurunnin dós sparar orku sem samsvarar 0.2 lítrum af bensíni og rafmagn til að halda gítarmagnara gangandi í tvo tíma. Sömuleiðis, sökum þess að álið er töluvert léttara en glerið, sparast slatti á flutningskostnað og tollum.

Gler er aftur á móti ekki eins endurvinnanlegt. Aðeins er endurunnið um 28% af seldum glerflöskum og í meðal glerflösku er aðeins 20-30% endurunnið gler.Talið er að fyrir hvert tonn af framleiddu gleri er skilað tveimur tonnum af CO2 en gler er a.m.k. búið til úr kísil sem við eigum nóg af og skilar af sér minna af heildarmengun.

Er ekki orðspor sem dósirnar hafa heldur ósanngjarnar? Ég held að í þessum texta er nægilega mikið af staðreyndum til að gera sér skoðun um málið, en endilega ef þið hafið einhverju við að bæta.

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt