„pílagrímsförin“

0
287

Bjórspjall.is fór í smá “pílagrímsför” í 3 brugghús seinustu helgi, 16. – 20. júní, samhliða því að heimsækja Akureyri og taka þátt í bíladögunum (frábær skemmtun, mælum eindregið með að allir bílaáhugamenn kíki á þessa daga).

Brugghúsin sem við heimsóttum voru Mjöður Ehf., Vífilfell / Víkingur og Bruggsmiðjan. Móttökurnar hjá Mjöður og Bruggsmiðjunni voru ótrúlega góðar og voru þeir hjá Bruggsmiðjunni meir að segja það almennilegir að sýna okkur starfsemi þeirra um kl 22:00 á föstudagskvöldi þar sem við vorum aðeins of lengi í heimsókn hjá Vífilfell þann sama dag. Við mættum samt dálítlum efa í byrjun hjá Vífilfelli og auðvitað tökum við vel í alla gagnrýni og er ætlun okkar að byggja á því en fengum engu að síður góða kynningu hjá þeim um verksmiðjuna í lokin ásamt mikið af gagnlegum upplýsingum.

Auglýsing

Verður að segjast að “Littlu” brugghúsin virðast vera miklu opnari fyrir því sem við erum að gera hér á Bjórspjall.is og vonum við að við getum haldið áfram að gera betur en komið er og vonum við jafnframt að allir sem eiga hagsmuni að gæta, munu halda áfram að veita okkur stuðning með upplýsingum um starfsemi þeirra.

Umræðuefnin voru nokkurn vegin þau sömu hvar svo sem við komum, aðallega hvað það er erfitt umhverfi hérna á Íslandi að halda uppi einhverri íslenskri bjórmenningu og hvað þá fyrirtæki sem bruggar bjór. Fyrir risana hérna á Íslandi eins og Ölgerðina og Víking, þá er það aðallaga skatta umhverfið sem skekur þá og hvað verið er að endurselja vörur þeirra með mikilli álagningu. En fyrir brugghús eins og Bruggsmiðjuna og Mjöður, þá er það nánast allt sem hefur áhrif á reksturinn, en þau hafa verið mjög sniðug varðandi reksturinn eins og með að hafa kynningar á rekstrinum, hópferðir og því um líkt, tappa sem sagt inn í ferða iðnaðinn og hefur það reynst þeim svakaleg kynning svo ekki sé minnst á, búbót (mælum eindregið með að fólk nýti sér þessar kynningar, mjög skemmtilegar og fróðlegar).

“littlu” brugghúsin eins og Bruggsmiðjan og Mjöður eru með ótrúlega fullkomna og góða aðstöðu til að brugga bjórinn og tappa og verður að segjast að þessi brugghús eru engu síðri en það besta sem gerist út í heimi, enda eru bæði brugghúsin að framleiða hágæða bjóra með hágæða hráefni (bara það eitt að brugga úr íslensku vatni setur bjórinn í enn hærri gæðaflokk heldur en marga aðra bjóra). Við verðum þó að koma einu á framfæri, að það að brugga úr Íslensku byggi er gott og blessað en það er ekki hægt að brugga 100% úr íslensku byggi bara fyrir þá ástæðu að það er enginn hérna á íslandi sem er að malta byggið svo að við vitum (fyrir utan að það er eflaust ekki framleitt nóg af byggi né myndi það svara kostnaði enn sem komið er að malta það), því þarf að blanda það með öðru möltuðu byggi svo hægt sé að nýta ensímin í því til að hægt sé að nýta íslenska byggið.

Vífilfell / Víkingur er alls engin hálfdrættingur í þessu öllu saman, enda gríðar stór framleiðandi og bruggar marga af bestu bjórum Íslands sem hafa unnið til nokkura verðlauna. En eitt af því sem vakti kannski hvað mestann áhuga var hvað verksmiðja þeirra er tæknivædd og mátti t.d. sjá þar stóra róbóta að störfum við að pakka inn bjórnum, stafla á bretti og plasta inn óhætt að segja að þeir fylgi þróuninni eftir.

Á meðan á heimsóknum okkar stóð, þá var mikið spjallað um allt á milli himins og jarðar í heimi bjórsins en það kom oftar en ekki einu sinni upp sú umræða um pólitíkina í kringum Íslenska bjórmenningu og léttvín yfir höfuð og verður að segjast að pólitíkin í kringum léttvín hér á Íslandi er hreint út til skammar. Við hér á bjórspjall.is ætlum því að ræða nokkuð um pólitíkina í kringum léttvín hérna á Íslandi á næstuni, en kannski ekki fara mjög náið út í það í þessari grein, ætlum við frekar að fara í smá rannsóknar vinnu og kynna okkur þetta umhverfi sjálfir og kafa djúpt í pólitíkina og kynna svo niðurstöður þeirra vinnu hér á Bjórspjall.is.

Markaðurinn var einnig eitt af því sem rætt var um og bara það sem dæmi þá lifum við í þjóðfélagi sem vill að við verslum Íslenska framleiðslu, en það á alls ekki við um Íslenska bjórmenningu þ.e.a.s. vörur frá brugghúsunum hérna á Íslandi. Við heyrðum mikið af óvannægju um hvað það væri erfitt umhverfi að koma af stað íslenskri bjórmenningu, að megninu til að það er litið hornauga á þessa vöru, augljóslega má ekki auglýsa vöruna (nema þá léttbjórinn) og enginn spáir út í það að þetta hefur jákvæð áhrif á þjóðarbúið, þetta skilar skatti eins og allt annað og kannski meira en margann grunar.

Verður að segjast að bjórmenning á Íslandi er ekki mikil, reyndar afskaplega lítil.Við fengum eitt afskaplega gott dæmi í einni heimsókninni, bara það að ætla að skreppa út á krá og fá sér bjór og biðja sem dæmi um Carlsberg en fá bjórinn borinn fram í glasi frá Ölgerðinni sem á stendur Egils Gull og eða öfugt. Þetta er að vísu ekki mjög stórt atriði fyrir marga (fyrir flesta er glas bara glas) en þetta skiptir máli, það er t.d. ástæða fyrir því afhverju mörg brugghús út í heimi selja og eða gefa sér merkt bjórglös, gefið að sum brugghús gera það upp á auglýsinguna en flest gera það til að bjórinn sem þau framleiða fái að njóta sín til fullnustu þ.e.a.s. það myndu flestir sem hafa vit á, ekki drekka rauðvín úr viskí glasi og eða öfugt en, ef við höldum okkur við gefið dæmi (og oftar en ekki, staðreynd) að það sé verið að auglýsa annan bjór / framleiðanda á glasinu sem drukkið er úr á meðan maður drekkur bjór frá samkeppnisaðila úr glasinu, er frekar ódýrt að okkur finnst (frekar þá að hafa ómerkt glas). Hvernig svo sem það er horft á þetta, þá er þetta dæmi um þá littlu bjórmenningu hérna á Íslandi (enginn metnaður hjá mörgum endursöluaðilum) og gott dæmi um hvað þarf að gera og breyta og þess mun meiri ástæða fyrir síðu eins og Bjórspjall.is – Bjórmenning.

Annað sem þyrfti að breyta hérna á Íslandi er, sú himin háa álagning sem krárnar láta á bjórinn, nú mega bjórframleiðendur selja bjór beint inn á krárnar án viðkomu í ÁTVR og skilst okkur að álagningin sé aðeins minni þar sem Vínbúðirnar eru ekki að setja sitt álag á framleiðsluna þar sem Vínbúðirnar eru þá ekki endursöluaðilinn heldur kráin, þá reiknast aðeins grunngjöldin þ.e.a.s. Áfengsigjaldið og VSK. Sem dæmi, þá vorum við staddir á bar eitt sinn og báðum við bardömuna um að reikna fyrir okkur hvað eitt hálfs líter bjórglas kostaði, hún reiknaði að hvert bjórglas kostaði ekki meira en 165 – 200 kr.- (og þetta dæmi var reiknað vel fyrir kreppuna) svo kemur öll álagningin frá barnum. Það þarf enginn að segja okkur að þetta sé svona há álagning hjá börunum vegna þess að vínveitingagjaldið sé of hátt, við erum búnir að kynna okkur þá verðskrá og kallar hún ekki á að það þurfi að setja slíkar álögur á bjórinn. Afhverju þurfa barirnir þá að leggja svona mikla álagningu á bjórinn svo nemi a.m.k. Um 150 – 300% álagning? Væri ekki nær að hafa smá Bónus stemmningu í þessu og gærða aðeins minna per glas en oftar?

Þetta voru aðeins örfáar spurningar sem var velt var fyrir sér í heimsóknunum á brugghúsin. Við köfum eflaust dýpra í allt hitt þegar á líður en þangað til væri gaman að vita hvað þú lesandi góður hefur um þetta að segja og jafnvel hefur þú einhverja innsýn inn í þetta og jafnvel getur gagnrýnt okkur og eða bætt inn í umræðuna.

Hitt er svo aftur annað að, ferðin var afskaplega skemmtileg og mjög fræðandi og viðtökurnar ótrúlega góðar og viljum við nota tækifærið og þakka kærlega fyrir okkur! Við höfum nú skoðað 4 brugghús af 5 og munum við án efa heimsækja Ölvisholt á komandi vikum.

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt