Ölgerðin – „Egils Gull valinn besti standard lager bjórinn“

0
451

Við eigum okkur marga mjög góða bjóra sem við getum verið hreykin af og sannaðist það enn og aftur samkvæmt grein inn á heimasíðu Ölgerðarinnar. Við tókum okkur smá bessaleyfi og birtum hér greinina að megninu til. Við óskum þeim til hamingju með þennan glæsilega árangur!

 

Auglýsing

Myndin er eftir Thorbjörn Ingason

Egils Gull var á dögunum valinn besti standard lagerbjórinn í heiminum í samkeppninni World Beer Awards. Alls var keppt í meira en þrjátíu flokkum og valið stóð á milli ríflega fimm hundruð tegunda. Fjöldi dómara frá öllum heimshornum blindsmakkaði hverja tegund og gaf einkunn. Að sögn Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, eru þessi verðlaun staðfesting á því góða þróunarstarfi sem fer fram hjá Ölgerðinni. „Fyrir fáeinum árum var til að mynda farið að nota íslenskt bygg við framleiðslu á Egils Gulli og á undanförnum mánuðum hafa átt sér stað smávægilegar breytingar sem hafa gert bjórinn enn betri. Egils Gull mun þó aldrei taka miklum breytingum, enda vinsæl og vel heppnuð vara.“

Guðmundur Mar Magnússon, bruggmeistari Ölgerðarinnar var að vonum himinlifandi með árangurinn. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Egils Gull hlýtur alþjóðleg verðlaun, en skemmst er að minnast silfurverðlauna sem honum féllu í skaut á World Beer Cup árið 2008. Þessi keppni er öðruvísi. Haldnir eru nokkurs konar milliriðlar í þremur heimsálfum, Evrópu, Bandaríkjunum og í Asíu og valinn er einn bjór í hverjum flokki frá hverjum stað, og einn af þeim hreppir svo titilinn. Því má segja að við höfum orðið Evrópumeistarar áður en við urðum heimsmeistarar“ segir Guðmundur stoltur. Formaður alþjóðlegrar dómnefndar World Beer Cup er Roger Protz, en hann er einhver mesti bjórsérfræðingur heimsins, og hefur t.a.m. skrifað yfir tuttugu bækur um bjór. Ein þeirra ber hið skemmtilega heiti, 300 beers to try before you die. Um Egils Gull segir dómnefndin: „Clear golden colour, small white head. Light toasted malt nose, grainy aroma. Lemony hops in the mouth. Crisp, dry and malty. Nice finish with some lingering bitterness.“ Sérstök verðlaunabók er gefin út í tenglsum við keppnina.

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt