Nýr jeppi eða örbrugghús?

1
546

Nýr jeppi eða örbrugghús? Það hefur orðið gífurleg fjölgun brugghúsa á landsbyggðini, nánar tiltekið örbrugghúsa. Þessari fjölgun brugghúsa má e.t.v þakka nýjum markaðsvæðum eins og Kína, þá hefur aldrei verið eins „ódýrt“ að versla bjórgræjur og heyrði ég út undan mér einhvers staðar að það væri ekki mikið dýrara að setja upp lítið örbrugghús eins og að kaupa sér nýjan fínan jeppa, eða um 15 – 20 milljónir.

Þetta er auðvitað æðisleg þróun fyrir bjór áhugafólk og eins og sést hér að neðan, þá eru æðislegar sögur á bak við mörg af nýjustu brugghúsum landsins. Það er óhætt að segja að bjórinn sé einn af merkari drykkjum heims sem kemur fólki oftar en ekki saman og tekst fólk á við og lætur af verða ótrúlegum og skemmtilegum hugmyndum sem margir hafa aðeins látið sig dreyma um.

En hvernig er þetta hægt? Fyrir utan að hafa aðgang að aðeins ódýrari brugggræjum, þá skildum við ekki vanmeta bjórþorsta íslendinga sem er enginn smá þorsti ef marka má þá gífurlegu uppbyggingu sem hefur orðið á islenskri bjórmenningu. Það er auðvitað búið að vera mikil vakning í bjórmenningu á íslandi og hefur það kallað eftir ferskum og nýjum bjórum á markaðinn sem við sjáum svarað í ótrúlegri fjölgun á örbrugghúsum og bjór börum, en án efa, þá sakar heldur ekki sú gífurlega fjölgun á ferðafólki og skemmir það án efa ekki fyrir að við erum að fá yfir 2 milljónir ferðamanna í ár, sem er mikil fjölgun á íslandi miðað við 340 þús. manns sem hafa fasta búsetu hér. Þeim fylgir svo án efa einhver bjór þorsti sem þarf að brynna og því er óhætt að segja að, ferðafólk hjálpar mikið með að kynnda undir þá gífurlegu uppsveiflu sem við sjáum í bjórmenninguni á íslandi.

Ég gæti ekki skrifað þessa grein nema ég myndi taka ofan fyrir eldri brugghúsum landsins sem hafa vissulega rutt veginn fyrir þeirri bjórmenningu sem við búum við í dag og án efa, verið mikill innblástur fyrir mörg af nýju brugghúsunum. Við höfum séð gífurlega flotta þróun eiga sér stað í þessum brugghúsum og hafa þau ekki aðeins framleitt hágæða verðlaunabjóra, heldur heims klassa bruggmeistara sem við njótum góðs af í hvert sinn sem við njótum góðs bjórs á góðri kvöldstundu.

En án frekari málalenginga, þá skulum við fara aðeins yfir nýju brugghúsin.

Ægisgarður er nokkuð nýtt á markaðinum, það eru 4 barir á staðnum og glæsilegt handverks brugghús sem Víking ölgerð á og rekur.

Á öldum Víkinga voru gjarnan haldnir leikar. Á þeim hittist fólk og gerði sér glaðan dag, tók þátt í keppni í ákveðnum greinum og að kveldi var svo fagnað með mat og drykk. Þessa hefð höfum við stuðst við og uppfært til vorra daga og sett upp okkar eigin leika hér í Ægisgarði, á vegum stærstu bjórverksmiðju okkar Íslendinga, Víking brugghús. Markmiðið er að koma fólki farsællega inn um gleðinnar dyr með leikjum og veigum, ásamt því að við lumum inn skemmtilegum fróðleik um sögu, sérkenni og hefðir bjórsins.

– Ægisgarður

Bryggjan brugghús er eitt af glæsilegri brugghúsbörum landsins og er jafnframt, fyrsti brugghúsbar landsins.

Okkar metnaður liggur í að framleiða frábæra bjóra og dæla honum beint í glös viðskiptavina með 12 bjórdælum sem eru á barnum. Við viljum líka færa viðskiptavinum okkar með vandlega valin vín af sommeliernum okkar Arturo Santoni Rousselle á fullkomnu hitastigi úr sérsmíðuðum vínskápum okkar. Andrew bruggari og Arturo Santoni Rousselle vínþjónn hafa síðan notað sína sérþekkingu til að para saman bjór og vín við matseðla okkar, auk þess sem barþjónar okkar blanda kokteila af sinni kunnu snilld.

– Bryggjanbrugghús

lady brewery
lady bjorar

Líkt og stofnendur Mikkeller, eða Mikkel Borg Bjergsø, framhaldsskóla kennari og blaðamaðurinn, Kristian Klarup Keller, þá hafa vinkonurnar í Lady Brewery ákveðið að tileinka sér hugtak innan bjórgeirans sem gefur hvað mest frelsi og er án efa, einstaklega gefandi fyrir marga, eða farandbrugghús, eða „gypsy brewery“. Lady brewery er því ekki í þeim eiginlega skilningi brugghús, í þeirri meiningu að það sé áþreyfanlegt brugghús til staðar, en þess í stað, geta þær farið í samstarf við hvaða brugghús sem er, hvenær sem er og þróað nýja og spennandi bjóra eftir því sem þeim dettur eitthvað sniðugt í hug. Það eru því nú þegar komnir út nýjir og spennandi bjórar frá þeim og við hlökkum til að fylgjast með hvað framtíðin ber í skauti sér.

Sigurður Snorrason er einn af eigendum RVK Brewing company sem er staðsett, eins og nafnið gefur til kynna, í Reykjavík. Sigurður er forfallinn aðdáandi bjórs, byrjaði heima hjá sér að brugga bjór eins og margir af bestu bruggurum heims. Sigurður sat í tvö ár sem formaður Fágunar, áhugahóp um gerjun og vann þar ötult að því að auka bjórvitund á meðal Íslendinga. Sigurður ákvað svo að stíga skrefið til fulls með því að stofna sitt eigið brugghús, eða RVK Brewing company. RVK Brewing company mun einbeita sér að því að gera gæðabjóra sem henta öllum þeim sem drekka bjór, jafnt þeim sem vilja einfaldari bjóra sem þeim sem vilja stóra, súra eða aðra krefjandi bjóra. „Við verðum með bruggstofu (tap room) og munum nota hana til kynninga og annarra mannfagnaða tengdum bjór“.

pizza and beer

Heilaga tvennan kemur saman í þessum brugghúsbar, eða pizza og bjór. Stofnandinn að þessu brugghúsi er hvorki meira né minna en, fyrrum bruggmeistari Ölvisholts.

Ölverk er staðsett í Hveragerði og er vel þess virði að kíkja í smá sunnudags bíltúr og kíkja við í eldbakaðar pizzur og bjór. Það er svo engin afsökun ef þið eigið ekki bíl, því þau hafa hugsað út í það og sett inn hvaða strætó fer frá Rvk til Hveragerðis, https://www.straeto.is/is/timatoflur/2/29.

The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum er mjög flott  dæmi um hvað hægt er að gera ef áhugi er fyrir hendi. Eru hér á ferð einstaklega flottir bruggarar sem hafa sýnt það og sannað að þeir kunna mjög vel til verka.

Fyrsta bruggun átti sér í byrjun apríl 2013 og samanstóð þá búnaðurinn af 30 lítra plastfötu með tveimur hitaelementum úr hraðsuðukötlum. Bruggað var í kjallaranum heima hjá Jóhanni að Hvítingavegi 6 í Vestmannaeyjum.  Í plastfötunni brugguðum við tvær tegundir sem tókust með ágætum og settar voru á flöskur nokkrum vikum síðar. Afraksturinn var um 19 lítrar af bjór og því ekki mikið per mann.

Eftir fyrstu bruggun lá starfsemi The Brothers Brewery niðri í nokkra mánuði. Ákveðið var blása lífi í brugghúsið í desember 2014 og bættist Hannes Kristinn við í teymið. Bruggbræður sáu mikinn hagnað í að fá Hannes í hópinn enda átti Hannes góðan bílskúr til að brugga í og einnig er Hannes menntaður plötusmiður. Farið var í það að stækka græjurnar og keyptur var 75 lítra pottur sem breytt var í suðupott. Í upphafi voru bruggaðar tilbúnar uppskriftir frá birgjanum  okkar en þegar hér er komið við sögu er farið að brugga eigin uppskriftir hannaðar af bruggmeistaranum Jóhanni Guðmundssyni.

– The Brothers Brewery

Þau ykkar sem hafið áhuga á að kíkja til Vestmannaeyjar en hafið ekki bíl, þá bendi ég á strætó hér að ofan 😉

Smidjan brugghus
bruggtaeki mætt í hús

Smiðjan brugghús verður svo opnað núna í haust, 2017.

Smiðjan Brugghús er handverkbrugghús staðsett í Vík í Mýrdal sem mun opna síðar á árinu 2017.
Við munum leggja áherslu á að auka handverksbjóra menningu og þekkingu

– Smiðjan Brugghús

Jón Ríki er fjölskyldu brugghús og veitingahús og er stað sett á Höfn.

Jón Ríki er fjölskyldu rekið brugghús og veitingastaður . Jón Ríki nýtir hráefni af svæðinu og nýtir aðeins hágæða malt sem bíður upp á hágæða bjóra og mat.

– Jón Ríki

jonriki logo
jolaol jonriki
beljandi
Beljandi brugg

Beljandi Brugghús er eitt af tveim brugghúsum á Austurlandi, staðsett á Breiðdalsvík.

Sagan hefst á hreindýraveiðum árið 2015. Þar hittast eigendurnir Daði Hrafnkelsson og Elís Pétur Elísson aftur eftir mörg ár, Elís Pétur hafði þá flutt til Breiðdalsvíkur þremur árum áður eftir mörg ár á ferðalagi um heiminn og Daði sem ennþá er búandi í Danmörku. Eftir veiðarnar fóru menn að ræða stöðuna á byggðarlaginu sem hefur mátt þola niðurlægingu eftir að sölu kvótans mörgum árum áður og fólksfækkunina sem því fylgir, svona kortéri oní góða wiskey flösku barst talið að því hvað væri hægt að gera til að vera með til að snúa þróuninni til hins betra og þá kemur í ljós að báðir eru áhugamenn um bjór og höfðu báðir verið með þá hugmynd að opna brugghús í bænum í nokkurn tíma, þeir voru meira segja svo samstíga að þeir voru báðir með sama nafn í huga á brugghúsið, Beljandi. Beljandi brugghús er nefnt eftir fallegum fossi í miðjum Breiðdal. Þegar hálftími var eftir af flöskunni höfðu menn tekist í hendur um að láta af þessu verða og við það var staðið. Snemma árið 2016 var keypt gamla sláturhúsið á Breiðdalsvík og hafist handa. Bruggtæki voru keypt frá Danmörku og innréttaður bar á efri hæðinni í sláturhúsinu sem ber nafnið Gæruloftið. Þetta er lítið brugghús sem getur framleitt um 5000 L á mánuði og hefur gengið vel, Brugghúsið opnaði 17 júní 2017 eftir að hafa tekið húsið algerlega í gegn að innan og utan og var fyrsta sumarið fínt, uppselt var næstum allt sumarið og brugghúsið hafði ekki undan að framleiða, því var aðeins aukið við framleiðsluna síðsumars svo næsta sumar verði enn betra. Það er stefna brugghússins að vera ekki að selja á dósum eða flöskum heldur selja einungis til bara og veitingastaða, enda er best að njóta bjórs með vinum og fjölskyldu á einum af fínni börum þjóðarinnar.

– Beljandi Brugghús

Austri brugghús er brugghús starfrækt á Egilsstöðum.

Austri Brugghús er nýlegt brugghús starfrækt á Egilsstöðum. Stefán Sigurðsson og Karl S. Lauritzson gengu um nokkurt skeið með þá hugmynd að stofna brugghús á Egilsstöðum þar sem ekkert slíkt var í þessum landsfjórðungi. Hægt og bítandi safnaðist síðan nægilegt hlutafé svo hægt væri að hrinda verkefninu í framkvæmd, en í dag eru hluthafar rúmlega 40. Þegar hlutafé hafði safnast voru pantaðar nýjar græjur frá Kína sem settar voru upp í nóvember 2016, það samanstóð af 350L meskitunnu, 350L suðutunnu auk 6 350L gerjunartanka. Brugghúsið sjálft er í nýlegu húsnæði við Fagradalsbraut 25.
Febrúar 2017 hófst síðan starfsemi í brugghúsinu með ráðningu Friðriks Bjarts, ungs bruggara af svæðinu. Eftir mánuð af þróunarvinnu komu síðan fyrstu bjórar á markað, Hvítserkur – Ljósöl, Bagall – Írskt Rauðöl og Slöttur- Bitter. Bjórar Austra fá allir nöfn eftir tindum á austurlandi sem prýða einnig merkingar bjórsins. Sala bjórsins fór vel af stað og ákveðið var um vorið að tvöfalda framleiðslugetuna með því að fá inn tvöfalt stærri gerjunartanka. Brugghúsið leggur áherslu á að þjónusta Austurland en með stækkuðum tönkum var hægt að taka það skref um haustið að bjóða upp á bjórinn í Vínbúðum svo nú er hægt að nálgast hann víðsvegar um landið.

– Austri brugghús

austri
bagall
brugg kompani
brugg kompani ol

Brugg Kompaní er staðsett á Akureyri og eins og sést í skrifum þeirra, þá eru þeir staðráðnir í að vera frumlegir og bjóða upp á nýja og spennandi bjóra í hverjum mánuði. Saga þeirra er mjög svo skemmtileg og sýnir það hvernig hlutirnir geta þróast hratt.

Þetta byrjði allt í enda 2012 þegar ég keypti minn fyrsta flugdreka ( snowkite). Þá kynnist ég fleiri strákum í þessu sporti og fer að fara ferðir með þeim. Eftir hvert session drógu þeir fram bjóra í grolch flöskum og allir fengu að smakka, flestir þeirra voru og eru heimabruggarar líka. Á þessum tíma drakk ég bara thule eða stellu, eða réttara að segja á þessum tíma drakk ég eiginlega ekki bjór, bjór t.d. rann út á dagsetningu hjá mér svo lítil var drykkjan og áhuginn, fannst þetta allt bragðast eins og var komin með hundleið á einhæfninni og það virtist vera einn ríkis humall í öllu. Þessir drengir opnuðu dyrnar fyrir mig og ég var aftur orðinn bjór maður! Ferskur sítrus ilmurinn og tropical bragðið var orðin mín ástríða. Ég bað strákana að senda mér uppskrift sem þeir gerðu og ég man þegar ég fékk hana að ég skildi ekki orð þarna, þarna voru orð eins og meskja, cennteniel, simcoa, ég var alveg týndur, en gafst ekki upp og næstu daga var google mitt fyrsta heimili. Ég fékk lánað einhvern plastdall með hraðsuðuketils hitaelimentum og meskipoka og prufaði mig áfram. Fyrsta lögun átti að vera Bells two hearted, sem endaði á því að bragðast eins og lyktin af öskubökum skemmtistaða voru daginn eftir partý, allir sögðu þetta getur ekki verið svo slæmt, gefðu þessu meiri tíma til að þroskast í flöskunum, ég gerði það. Þegar ég svo opnaði flösku aftur 2 vikum seinna þá opnaðist hún með miklum krafti og upp gaus allur bjórinn og minnti meira á þegar ég opna kampavín á áramótum. En þetta var semsagt fín bjór fyrir þá sem bæði reykja og drekka, þarna var komið svarið við reykingarbanninu inná börunum, þegar þú drakkst þetta var eins og þú værir að reykja líka. Orsökin fyrir þessu kom svo seinna í ljós.
En áfram hélt ég að brugga og prufa eitthvað nýtt og fann svo bjór sem ég vildi alltaf eiga í mínu húsi. Það var svo á þar síðasta ári sem ég er að vinna fyrir mann sem vissi að ég væri að fikta við þetta og bað mig um að koma með smakk handa sér, opnum brugghús sagði hann strax, ég hló bara að þess, kláraði verkið og fór. Augljóslega virkaði það ekki og í maí 2017 hringir hann í mig og segir mér að koma hitta sig hjá bókaranum sínum, fyrirtæki var stofnað. Næstu dagar og mánuðir fóru að sækja um alskonar leyfi, redda tækjum og tólum og finna húsnæði.
Tækjakosturinn eru gömlu tæki strákana í Brothers brewery sem gerir okkur að minnsta starfandi brugghúsi landsins held ég. Hugmyndin var að byrja smátt og reyna stækka í róleg heitunum. En þetta virkar ekki svoleiðis, því allt sem keypt er í litlu magni er margfalt dýrara en ef þú getur keypt efnið í gámavís sem gerir stóru brugghúsin miklu, miklu hæfari í allri verðlagningu á vörunni, ENN ekki endilega framar í að gera góðan bjór.
Það var svo í núna í ágúst eða september sem við byrjuðum að prufa okkur áfram í tækjunum, ég var alltaf ákveðin að vera með einn góðan IPA bjór, sem varð auðvitað sá sem ég var alltaf með heima og ég kalla Rauðhettu. En Ragnar félagi minn heimtaði að ég mundi prufa mig áfram og finna einhvern bjór fyrir þá sem ekki eru komnir þangað, og vildi einhvern mildari. Það Voru gerðar nokkrar tilraunir og að lokum var APA niðustaðan og Hrói varð til, nokkurs konar millistig á milli saaz bjórana og IPA. Fyrir mér var samt alltaf draumurinn, kúnans vegna og allra bjór áhuga manna að geta stanslaust boðið eitthvað nýtt á dælu til að menn fái þá síður leið og hætti að drekka bjór eins og ég gerði. Svo hafa undanfarnir dagar farið í að átta sig á stöðuni í sölu málum, sem enginn virðist vilja ræða hátt um. Staðan er nefnilega enn þá sú hér að það er voðalega lítið til af sjálfstæðum börum, annað hvort eru þeir sponsaðir af risa 1 eða risa 2 og það falið í formi fyrirfram greiddra afsláttar eða einhverju sambærilegu, og svo eru gildandi samningar til einhverja ára við þessa sömu aðila. Þannig að komast með nýja vöru inná þennan markað er enginn dans á rósum. En vonin er enn þá sú að einhver hetja standi upp og rífi sig frá hjörðinni hér fyrir norðan og bjóði uppá eitthvað annað enn saaz bjóra á dælu. Eins og staðan er í dag eru nokkrir staðir sem eru með rauðhettu og hróa í sölu, en við bíðum spenntir eftir því hver það verður sem þorir og getur boðið uppá akureyskan handverksbjór þar sem þú sem bjóráhugamaður getur treyst því að það verði nýr spennandi og brakandi ferskur bjór á dælu sem EKKI er bruggaðir eftir aldagamlli hefð til að smakka í hverjum mánuði.

– Kveðja strákarnir í Brugg kompaní, „bruggað af mönnum, ekki vélum!“

Segull 67 er siglfirskt fjölskyldu brugghús sem er í eigu þriggja kynslóða. Ákváðu þeir að gera upp og endurnýta gamalt fiskverkunarhús sem gefur brugghúsinu einstaklega skemmtilegan brag.

Ég, Marteinn Brynjólfur Haraldsson, stofnaði brugghúsið ásamt föður míunum Haraldi Marteinssyni og afa mínum sem var alnafni minn 2015. Hann lést sumarið 2016 og nú á amma mín Álfhildur Stefánsdóttir hans hlut. Ég var búinn að vera lengi með þessa hugmynd um að stofna brugghús en það var ekki fyrr en byrjun 2015 þegar ég náði að plata þá með mér í þetta verkefni. Ég sjálfur var búinn að ferðast mikið í suður/mið amerríku þar sem ég hugsaði mikið um þetta og síðan farið í heimabruggið þegar ég kom heim til íslands, Afi hafði mikinn áhuga á þessu og síðan varð af. Strax frá byrjun vorum við með húnsæði í huga, gamla frystihúsið sem hafði verið tómt til margra ára, það varð fyrir valinu og við fengum að gera það upp. Allt árið 2015 fór í að undirbúa húsnæðið og gera það nothæft og í dag er bruggverksmiðjan inn í gamla frystiklefanum og smökkunar barinn þar sem hraðfrystitækinn frystu fiskinn í pönnur og fyrir ofan allt saman var sjálf fisk vinnslu línan. Það er mikil saga í húsnæðinu og gaman að segja frá henni. Brugghúsið fékk nafnið Segull 67, þar erum við að tengja í segulnálina í áttarvitanum. Logoið okkar er sniðað af því, á meðan 67 er happatala innan fjölskyldunnar. Langiafi minn Stefán Guðmundsson keyrði um Siglufjörður á gömlum benz vörubíl og flutti þar á meðal fisk í frystihúsið en bílnúmerið var F67, síðan var það alnafni og afi Marteinn B Haraldsson sem var mikill sjómaður, hann áttu tryllur og yfirleitt allir hans bátar voru með einkennisnúmerið SI67. Þegar að langiafi dó þá átti hann 67 börn og barnabörn.

Segull 67 Original og Segull 67 Sjarmör eru okkar aðal bjórar, Original er Amber lager og Sjarmör er þýskur pilsner, við erum síðan að bæta við okkur Segull 67 NEW SIGLÓ IPA inn í línuna. Síðan erum við að taka þátt í árstíðabundnum bjórum og höfum tekið þátt í jóla,þorra,páska,sumar og Október. Við notum úrvals þýskt bygg, bjórarnir okkar eru ógerilsneyddir, ósíaðir, engin viðbættur sykur, aukaefni né rótvarnarefni.

segull67
Segull 67
cropped-Homepage_frontpage_LightBG_2000x1200

Draugr er svo nýjasta brugghúsið í „hverfinu“. Þeir eru enn að vinna að því að koma upp brugghúsinu, við hlökkum til að sjá hvað mun koma frá þeim.

Eitt er víst að við lifum á tímum örbrugghúsa. Þau spretta upp eins og enginn sé morgun dagurinn og eru víst fleiri í bígerð. Við erum auðvitað einstaklega þakklát fyrir allt þetta flotta bjór áhugafólk sem kallar ekki allt ömmu sína og lætur verða af draumum sínum þrátt fyrir þungt og erfitt umhverfi fyrir slíka starfsemi hér á íslandi.

Skál!

1 athugasemd

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt