Minibrew – Allt sem þú vildir vita

0
3170

Það hafa orðið stórstígar framfarir í heimabruggun á síðustu árum. Með tilkomu Braumeister, Grainfather, Brewster, Robobrew, Pico brew, Brewy og svo mætti lengi telja. Þá hafa þessi tæki bylt heimabrugginu svo um munar en ég ætla að leyfa mér að segja að ekkert af fyrrnefndum tækjum hefur og mun bylta heimabrugginu eins mikið og græjan frá Minibrew.io. Minibrew er ekkert annað en risa bylting í heimabruggun, sem og fyrir fagfólk. Þeir eru svo sannarlega búnir að hækka standardinn í heimabrugginu og þú getur nú nálgast þitt eigið tæki hjá Ámuni!

Tækið er einstaklega vel gert, með viðar ramma sem umlykur botn, bakhlið og topp. Það finnst strax að tækið er traust og muni ekki brotna við minnstu snertingu. Alla íhluti er auðvelt að meðhöndla hvað varðar að tengja og þrífa. Það er aðeins einn hnappur á grunnstöðini, sem og kútunum. Það er ekki hægt að stjórna Minibrew vélini nema með Iphone app-inu eða vef gátt. Það er óhætt að segja að, tækið er einstaklega fallega hannað og er augljóst að þeir hafa lagt mikið í hönnunina á tækinu, gert til að endast.

Tækið er 58x48x30 (hæð, lengd, breidd) þar sem það er breiðast, kúturinn er 45x46x40 (hæð, lengd, breidd). Tækið passar í flestum tilfellum ekki undir skápana í eldhúsinu, en það sómir sér vel og lítur einstaklega vel út á opnum bekk eða eldhús eyju (passaði reyndar ljómandi vel á eldavélina heima hjá mér þar sem hávurinn er hærri en skáparnir).

Tækið gerir svo allt frá A – Ö. Meskir, skolar kornið (sparge), sýður, humlar og hvað eina. Jafnvel þryfin eru sjálfvirk. Það sem áður tók marga klukkutíma er nú orðið að nokkrum 10 mínútna verkum að setja upp og stilla, vélin sér um rest.

Með þessu tæki, þá er verið að leitast eftir að brugga sömu gæða bjórana og brugghúsin gera, að hafa sagt það, þá skal þó hafa í huga að, gæðin velta á hreinlætinu (sem er ávalt númer 1, 2 og 3 þegar kemur að bruggun), hráefni og s.frv.

Tækið kemur í 3 útgáfum eða;

Minibrew Craft – 205.000 kr í Ámuni

Er fyrir fólk sem vill ekkert vesen! Notast er við Iphone app til að brugga (Android app er á leiðini). Tækið er svo læst, þ.e.a.s hægt er að versla fyrirfram tilbúna pakka sem þú skannar svo inn í appið (QR kóði) og tækið sér um rest. Pakkarnir eru „all grain“, þ.e.a.s bara korn, humlar og ger, ekki fljótandi malt eða malt í duft formi, mjög vandaðir pakkar, settir saman af færum bruggmeisturum (nokkrir verðlaunabjórar á meðal bjórpakkana). Nýverið, þá rúlluðu þeir út áskrift að brugg gáttinni, þá geta þau sem versla grunnvélina, ákveða á einhverjum tímapúnkti að hætta að nota bruggpakkana og vilja nota brugg gáttina, þá verður hægt að gerast áskrifandi að því fyrir um €89 á ári, eða um €7,42 á mánuði. Með þessu eru þeir að skapa sér tekjulind auk þess að lofa stöðugum uppfærslum á brugg gáttini öllum vonandi til góða.

Í pakkanum kemur;

1 x Minibrew grunnstöð.
1 x MiniBrew Smartkeg og standur.
1 x Krani.
1 x Co2 þrýstijafnari

Minibrew Craft Pro – €1499 – 1709,99

Þessi útgáfa er ætluð meira, brugghúsum, brugghúsbörum og s.frv. Þetta tæki kemur opið, þ.e.a.s þú getur leikið þér með þetta tæki að vild, það er svo hrátt ef svo má segja að, það eru ekki einu sinni hægt að velja bruggpakkana í gáttinni líkt og hægt er að gera með Iphone appinu (þú getur þó enn valið um að versla bruggpakka ef þú vilt), þú verður að setja upp allt saman sjálf/ur, hráefni, uppskrift, tímaskráningar og s.frv.

Með þessum pakka kemur sér aðstoð fyrir brugghús og aðra fagaðila, beinn aðgangur að bruggmeistara Minibrew.io sem og verkfræðingum ef það fer eitthvað úrskeðis.

Í pakkanum kemur;

 • Aðgangur að brugg gáttini
 • 1 x Minibrew stöð.
 • 3 x MiniBrew Smartkeg + 3 Standar.
 • 3 x kranar.
 • 3 x Co2 þrýstijafnarar

Þriðji valkosturinn er svo Minibrew Thirsty office – €2.599, sem er í raun sami pakkinn og Minbrew Craft, þ.e.a.s stjórnast af appi, en það koma 4 kútar og ætlað fyrir (eins og nafnið gefur til kynna) skrifstofuna/fyrirtækið. Það er svo eins með þessa útgáfu og Minibrew Craft að það verður hægt að kaupa áskrift að brugg gáttinni.

Kostnaður við hvert brugg

Það fer eftir þvi hvort þú ert með aðgang að appinu eða brugg gáttinni hversu frjáls þú ert með að brugga, þ.e.a.s í appinu þá er eins og áður sagði, notast við tilbúin sett. Þessi sett eru búin til af bruggmeisturum og því mjög vönduð, þeir eru þó nokkuð dýrir eða frá €17.99 rétt yfir 2500 kr fyrir um 5 – 5,5 lítra, eða rétt rúmlega 450 kr líterinn, 225 kr fyrir hálfan líter og rúmlega 150 kr fyrir 330 ml. Dýrasti pakkinn er þó €29.99, eða 4200 kr pakkinn, það er svo hægt að reikna út lítraverðið út frá því. Þessi verð eru ekki mjög hvetjandi, en það verður að hafa í huga að þú ert að brugga handverksbjór með hágæða hráefni og bjórinn er eins ferskur eins og hægt er. Sem dæmi, að kaupa handverks bjór, 330 ml fer langt yfir 200 kr í vínbúðunum.

Eins og áður sagði, þá er hægt að fá áskrift að brugg gáttinni, ef svo, þá færðu að brugga með þínu eigin hráefnum. Ef miðað er við uppskriftir sem verið er að selja í heimabruggbúðum hér á íslandi, þá væri hægt að kaupa tilbúna uppskrift fyrir 900 kr eða jafnvel minna ef keypt er í magni. En ofan á þetta bætist svo auðvitað um €7,42 á mánuði í mánaðarlegt áskriftargjald að brugg gáttinni.

Sé tekið mið af 1000 kr fyrir hverja 5 lítra, eða 200 kr fyrir líterinn, 100 fyrir hálfan líter, ca 70 kr fyrir 330 ml, þá er þetta vel þess virði fyrir handverks bjór og mun borga sig upp á örskots tíma ef bruggað er reglulega.

App-ið, brugg gáttin og uppsetning

Að setja tækið upp er lítið vandamál með appi sem aðeins IPhone notendur enn sem komið er (Android app er á leiðinni) fá að njóta. Viðmótið er hið þægilegasta og þú ert leidd/ur í gegnum allt bruggferlið í máli og mynd, þetta er því eins notendavænt og hægt er. Notandinn getur svo notað einstaklega þægilegt tól sem auðveldar að finna þann bjór sem þig langar að brugga eins og sést á myndinni hér að neðan, appið stingur svo upp á bjórpökkum sem gæti samsvarað þeim leitar skilyrðum sem þú settir inn.

Ef þú hins vegar hefur nælt þér í Minibrew pro (eða uppfært þig frá appinu yfir í áskrift að brugg gáttinni), þá færðu aðgang að Minibrew brugg gáttinni sem er vefforrit sem stjórnar öllu frá A – Ö. Þar er hægt að búa til eigin uppskriftir og brugga eftir þörfum. Bruggferlið er svo einstaklega einfalt og þægilegt, sama þar og Iphone appið, leitt þig í gegnum ferlið í máli og myndum, þú færð ekki að halda áfram nema að hafa farið í gegnum allar leiðbeiningarnar og enda þær ekki eftir fyrsta bruggið, þú færð leiðbeiningarnar um leið og eitthvað þarf að gera, t.d þrífa tækið, setja kornið og humlana í tækið, setja tækið saman, gerjunin, seinni gerjun, þurrhumlun og s.frv. Þú ert bókstaflega leidd/ur í gegnum allt á mjög einfaldan hátt. Það er að sjálfsögðu hægt að flýta fyrir ef þú ert orðinn svo örugg/ur að þú teljir þig ekki þurfa á því að halda, en það er gott að hafa ef eitthvað bregst. Gáttin heldur svo utan um uppskriftir og er með sérbyggt tól til að búa til uppskriftir. Eftir að búið er að búa til uppskriftina, þá þarf einungis að velja „New Brew“, velja þá uppskrift sem þú vilt brugga og vélin leiðbeinir þér með allt.

Grunnstöðin er svo með sitt eigið WiFi. Þú virkjar uppsetningarferlið með því að halda inni takka aftan á grunnstöðini þar til gaumljósið verður fjólublátt. Því næst ferðu í næstu tölvu/spjaldtölvu/síma og leitar að WiFi neti sem heitir einfaldlega „Minibrew“. Þegar þú hefur tengst Minibrew hotspot-inum, þá ætti að opnast sjálfkrafa gluggi, ef ekki, þá er hægt að stimpla inn í vafrann 198.168.0.4 og kemur þá upp innskráningar síða þar sem þú velur heimilisnetið þitt og setur inn lykilorðið þar inn, þegar búið er að staðffesta það, þá tengist grunnstöðin internetinu og byrjar líklegast á að uppfæra sig með nýjasta hugbúnaði (ath. það kemur bleikt ljós í dágóðann tíma sem merkir að grunnstöðin/kúturinn er að uppfæra sig, það gæti tekið um 10 – 15 mín). Sama er gert með kútana, en þeir eru nettengdir og streyma 24/7 upplýsingum um hvernig bjórnum þínum líður (hitastig og hversu langt í bruggferlinu bjórinn er kominn) og hver næstu skrefin eru t.d ef það þarf að hreinsa ger kútinn, þurrhumla og s.frv.

Hreinsunarferlið

Hreinsunarferlið er tvíþætt, annars vegar er grunnstöðin hreinsuð með búnaði sem er líkast hjarta (sjá myndband hér að neðan).

Þegar það á svo að brugga, þá er kúturinn einn og sér settur í stöðina og hann tengdur með slöngum við grunnstöðina, kúturinn og grunnstöðin eru þá aftur hreinsuð til að undirbúa fyrir bruggið, hreinlætið er því ofar öllu.

Það er notast við uppvöskunartöflur í hreinsunarferlinu, ath. það verður að passa að það sé ekki glans efni með í töflunum. Það er skynsamlegt að versla Star San til að sótthreinsa inn á milli kranatengi og s.frv en það má líka nota viðurkennd sótthreinsivökva fyrir matvælaiðnað.

Bruggferlið

Í myndbandinu hér að neðan, er hægt að sjá nokkuð einfalda mynd af ferlinu, vissulega vantar pínu þarna inn, en í stórum dráttum er það eins.

Kútarnir

Kútarnir eru svo hreint út æðislegir. Ekki aðeins gerja þeir bjórinn við kjör hitastig, þeir koma með litlum ger kúti (sést í myndandinu hér að ofan) sem festur er að neðan og er því hægt að losa um gerið á milli gerjunarstiga (fyrri gerjun og seinni gerjun). Þú færð svo að vita hvenær þú mátt þurrhumla (það fylgir með net til að þurrhumla) ef það fylgir uppskriftinni og hvernig þú getur hagað því (leiðbeiningar í máli og mynd). Lokið á kútnum er svo ætlað fyrir loftlás, þrýstilás, kranatengi og gashylki. Þú færð svo ítarlegar upplýsingar beint í æð, annað hvort í Iphone appið eða gáttinni. Það eina sem vantar, er sykurflotvog, alkahólmælir og pH mælir, hver veit, kannski það sé á leiðini?

Að leita sér aðstoðar

Þjónustuverið/notenda aðstoð er í alla staði hreint út frábær. Þeir svara fljótt og örugglega og hafa jafnvel hringt í mig ef eitthvað er. Þeim er svo annt um upplifunina og hringdu í mig þegar þeir sáu að ég hafði bruggað einu sinni til að fá mína upplifun af tækinu. Nú gæti það verið að þeir hafi bara gert það á meðan tækið var ekki komið í formlega sölu, en það var engu að síður mjög vel gert.

Gallar

 • Það er ekki stuðningur við Android (enn sem komið er, það er verið að þróa það).
 • Tækið er pínu dýrt, en það er svo þess virði ef þú ert mikill bjór aðdáandi og það mun borga sig upp á endanum. En svo aftur, ef þú vilt kaupa t.d Braumeister, þá fer 20+ lítra vél á um 240 þús og þú þarft að brugga í fötu, stjórna öllu sjálfur (þá e.t.v að fjárfesta í ískápi og breyta, þar fer kostnaðurinn á flug) og vona að allt takist vel til.
 • Bjór pakkarnir eru frekar dýrir en þú getur keypt áskrift að brugg gáttinni, þetta er því ekki svo mikill galli eftir allt saman.
 • Gas hylkin eru mjög lítil, eða ca 16 grömm, en það er hægt að kaupa annan gas stillir og festa við t.d sodastream flösku.

Kostir

 • Tækið er sjálfvirkt, þú þarft einungis að tengja og setja hráefnið í og tækið sér um afganginn. Þú færð svo skilaboð þegar allt er búið.
 • Mér finnst það kostur að það bjóði aðeins upp á 5 – 5,5 lítra, ég lærði það fljótt að það er ekkert gaman að brugga 25 lítra af bjór og þurfa að henda ef eitthvað misheppnast, auk þess, þá fannst mér mest spennandi að brugga sem ofast og eru þá 5 lítra bruggun kjörin fyrir þá sem finnst virkilega gaman að brugga.
 • Þegar búið er að brugga og kúturinn lokaður, þá er ferlið nánast allt lokað, það kemst ekkert að sem gerir bruggferlið mun öruggara, fyrir vikið færð þú jafn góðann bjór og brugghúsin gera.
 • Þryfin eru alger draumur. Vélin hreinsar sig sjálf og allt annað er hægt að setja í uppvöskunarvélina.
 • Bruggpakkarnir eru settir saman af brugghúsum og eru jafnvel verðlauna uppskriftir, þú ert því að brugga hágæða bjóra sem fást út í búð, en fyrir minni pening og jafnvel enn ferskari en úr Vínbúðini.
 • Ef bruggpakkarnir heilla þig ekki, þá er hægt að gerast áskrifandi að brugg gáttinni og stjórna öllu bruggferlinu frá A-Ö.

Myndum við mæla með þessu tæki?

Já ekki spurning! Hagræðingin af þessu tæki er hreint út frábær, nýjir og betri tímar í heimabruggun. Þeir sem nenna engu veseni eiga eftir að dýrka þessa vél.

Minibrew Craft Pro tækið hentar einstaklega vel fyrir brugghús sem vilja gera tilrauna brugg og geta treyst því að bjórinn bragðist eins í tilraunaferlinu sem og í stóru tækjunum. Tækið hentar líka einstaklega vel til að setja tilraunabjórana í tilraunasölu til að sjá undirtektir. Brugghúsbarir, litlir veitingastaðir og s.frv gæti haft mikið gagn af þessu.

Hvar er hægt að nálgast tækið?

Áman er með einkasölu á þessu tæki á Íslandi, það er því um að gera að kíkja í heimsókn til þeirra og skoða gripinn.

Áman
Sími 533 1020
Email: aman@aman.is
https://www.facebook.com/www.aman.is/

Við kvetjum svo alla til að taka þátt í Minibrew Facebook hópnum okkar – Minibrew – Ísland

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt