Hvernig mjöður er bruggaður

1
700
Golden liquid

Í þessari grein mun ég fara yfir hvernig þú bruggar mjöð heima með ágætis niðurstöðum. Ég mun fara yfir grunnatriði mjaðargerðar og gerjunarferlisins og mun bæta við myndum síðar.

Mjaðarbrugg er mögulega það einfaldasta brugg sem hægt er að taka sér fyrir hendur þar sem í grunninn eru bara þrjú innihaldsefni sem eru nauðsynleg: Hunang, vatn og ger. Aftur á móti er best að fara aðeins lengra út í það, þar sem það skilar betri niðurstöðum. Þá á ég við til að mynda að nota gernæringu, hafa mash-ið í hitastilltu herbergi við 25-27°C, o.s.frv. Ferlið sem slíkt er frekar einfalt, flókni parturinn er einfaldlega að  sýna þolinmæði! Mjöður verður yfirleitt ekki fullbúinn á 7 dögum eins og bjórinn!

Grunnáhöld

Grunnáhöld til mjaðargerðar eru ekki mörg og yfirleitt ekki dýr og endast yfirleitt til lengri tíma ef vel er farið með græjurnar. Heimabruggsverslanir s.s. Vín/Bjórkjallarinn og Áman eru allar með þau áhöld sem þú munt þurfa. Svo er mögulegt að þú eigir eitthvað af þessu til fyrir!

 • Rústfrír suðupottur, helst yfir 10l. Hangikjötspotturinn hennar mömmu virkar fínt 😉
 • Hitamælir.
 • Sykurflotvog.
 • Plastgerjunarílát eða glerkútur til aðalgerjunar
 • Plastgerjunarílát eða glerkútur til eftirgerjunar.
 • Loftlás.
 • Hævert til að fleyta vökvanum milli íláta.
 • Brugghreinsir/Gerileyðir
 • 6-7 kíló af hunangi
 • 20 grömm af mjaðargeri, ég mæli með  SN9 frá Vintner’s Harvest.
 • Gernæring. Ég mæli með DAP, eða Diammonium Phosphate

Virðist frekar einfalt, er það ekki?

Undirbúningur

Undirbúningur undir allt brugg er mjög mikilvægt þrep og þar ræður hreinlætið úrslitum hvort vel tekst til eður ei. Reyndir bruggarar vita þetta, en nýliðar vita kannski ekki að öll áhöld og ílát sem koma að brugginu verða að vera vel hrein og „sótthreinsuð“ (það tekst auðvitað ekki að sótthreinsa allt 100% en því sem næst er best). Ekki nota heimilishreinsiefni, notaðu brugghreinsi svo sem klórsóda, joðófór eða metabisúlfít. Þessi efni eru öll seld í bruggverslunum og eru notuð víðsvegar í matariðnaði. Ef klórsódi er notaður, þá er best að hreinsa það mjög vel úr öllum ílátum og áhold skoluð mjög vel, annars gæti það endað með að fá illt í magann og heimsókn á sjúkrahúsið! 😉

Byrjið á því að láta öll áhöld liggja í hreinsilausn í 10-30 mínútur (mælt er með að áhöld séu í 45 mín með klórsóta) til að vera viss um að allir gerlar séu dauðir. Skolið svo vel og geymið ílátin á hreinum stað þar sem gæludýr og börn ná ekki til. Vilt ekki fá aðskotahluti í bruggið. Sótthreinsið því næst öll áhöld aftur og geymið á sótthreinsuðu vaskaborði og/eða hreinu handklæði þar sem auðvelt er að ganga í  þau. Ég hef lært þetta af eigin reynslu, það er virkilega þægilegt að geta gengið í þau áhöld sem maður þarf, þegar maður þarf þau. Svo er ekki slæm hugmynd að vera með vin með sér til að aðstoða sig.

Bruggferlið

Eftir að allur undirbúningur er búinn og öll áhöld og ílát hrein og fín, þá er kominn tími til þess að gera mjöðinn! Þetta er að mínu mati skemmtilegasti parturinn (fyrir utan smakkið, auðvitað!) í öllu ferlinu.

Taktu hunangskrukkurnar og láttu liggja í heitu kranavatni í smá stund til að gera það auðveldara að hella hunanginu. Hitaðu u.þ.b tvo lítra af vatni í pottinum upp í 71-80°C og helltu síðan hunanginu útí og eina teskeið af gernæringu. Hrærðu svo með sótthreinsaðri plast eða stálskeið, EKKI viðarsleif, þangað til að allt hunangið er leyst upp í vatninu og láttu sitja í 10-30 mínútur, það tryggir að allt villiger og allir gerlar sem voru í hunanginu séu dauðir og munu ekki verða til vandræða seinna meir.

Að því loknu, helltu lausninni í gerjunarfötuna þína, eða með sótthreinsaðri trekt í gerjunarkútinn þinn ef þú ert að nota glerkút og láttu það sitja þangað til að lausnin er búin að kólna niður í herbergishita. Þá skaltu bæta við vatni þangað til þú hefur náð 23 lítrum, eða þangað til að sykurflotvogin þín mælir 1.090-1.110. Því næst skaltu hræra duglega í lausninni til að leysa upp eins mikið súrefni í henni og þú getur. Að því loknu, getur þú bætt við gerinu og lokað bruggílátinu.

Aðalgerjun

Eftir að gerinu er sáldrað hefst gerjunarferlið. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er gerið að borða sykurinn í lausninni og breytir honum í etanól og koltvísýring.

Mjöður er öðruvísi en öll önnur vín, þ.e.a.s eftir að gerinu er sáldrað er best að hræra duglega í miðinum daglega til að losa kolsýru þangað til að einn þriðji af sykrinum hefur verið meltur af gerinu. Þetta er gert vegna þess að hunang er þar til gert næringarsnautt umhverfi fyrir gerið og þess vegna þurfum við að hlúa vel að því. Þess vegna mæli ég með eftirfarandi aðferð:

Hræra duglega einu sinni á dag í gerjunaríláti (með hreinsuðum áhöldum) til að losa sem mesta kolsýru og hleypa súrefni í lausnina. Því næst er einni teskeið af DAP/gernæringu bætt við fyrstu þrjá daga gerjunar og lausnin sykurmæld. Þegar einn þriðji sykursins er farinn (þ.e. ef flotvogin mældi 1.090 uprunalega, þá ætti hún að lesa 1.060 þegar 1/3 af sykrinum er meltur) er mjöðurinn látinn alveg vera þangað til að loftlásinn hættir að búbbla. Þá hefst eftirgerjun.

Eftirgerjun

Eftirgerjunarferli mjaðar er valvkætt skref sem margir taka. Eftirgerjun hefst þegar mestur sykurinn hefur verið meltur af gerinu, þá á gerið erfitt með að melta restina og tekur það því lengri tíma að klára gerjun. Þetta skref er ekki nauðsynlegt og veltur allt á smekk hvers og eins.

Þegar aðalgerjun lýkur skaltu sótthreinsa bruggílát og hævertinn þinn. Fleyttu miðinum í nýja bruggílátið. Núna væri réttur tími til að bæta við felliefni (s.s. bentoníti) til að hjálpa við að tæra mjöðinn. Eftir að þú hefur klárað að fleyta miðinum og setja í felliefni, lokaðu ílátinu og settu á loftlás og bíddu í 2-3 vikur, þá er mjöðurinn fullgerður.

Gerstopp

Ef þú vilt ekki kolsýra mjöðinn þinn verður þú að setja í hann gerstopp (s.s. sorbat) til þess að drepa allt ger og stöðva gerjun. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir flöskusprengjur (nema notaðar eru þrýstiþolnar flöskur, t.d bjórflöskur og vilt þá fá kolsýru/gos)! Þetta er mikilvægt skref, hvort sem þú settir mjöðinn í eftirgerjun eða ekki þar sem að gerið er ennþá lifandi. Þú einfaldlega sáldrar innihaldi pakkans, eða sirka 10-20 grömmum af sorbati í mjöðinn og hrærir rólega í með sótthreinsaðri hræru til að leysa það upp og bíður í einn til tvo daga. Þá ætti mjöðurinn að vera tær og fallegur og tilbúinn til átöppunar!

Lokaorð
Mjaðarbrugg sem og allt brugg er virkilega skemmtilegt ferli. Þegar þú hefur tappað miðinum á flöskur og sett korka eða tappa á þá er best að láta hann sitja í 6-12 mánuði á hlið í öldrun því mjöður batnar rosalega með aldrinum. Annars er ekkert að því að drekka hann strax ef þér finnst hann góður nú þegar! 🙂

Vonandi reynist þessi uppskrift ykkur vel og þið fáið eins góðar niðurstöður og ég. Seinna meir mun ég setja hér inn flóknari/öðvurísi uppskriftir, en ekki hugsa þetta sem hina einu sönnu byrjendagrein. Lesið ykkur til og lærið eins mikið og þið getið áður en þið byrjið, þannig fáið þið sem bestar niðurstöður.

Gleðilegar bruggstundir!

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt