Bríó og Úlfur skara fram úr í alþjóðlegri keppni

0
526

Tveir íslenskir bjórar unnu til verðlauna í alþjóðlegu bjórkeppninni World Beer Awards 2012 sem kláraðist á föstudaginn var. Úlfur var valinn besti evrópski bjórinn af tegundinni IPA eða India Pale Ale og Bríó hlaut verðlaun sem besti pilsnerbjór í Evrópu, bætti svo um betur og hlaut heimsmeistaratitil í sama flokki. Báðir bjórarnir voru þróaðir í Borg Brugghúsi, handverksbrugghúsi Ölgerðarinnar.

Vinsæll og margverðlaunaður

Auglýsing

Bríó er fyrsti bjórinn sem Borg Brugghús sendi frá sér en hann kom á markað 2010. Bjórinn var þróaður í samstarfi við Ölstofu Kormáks og Skjaldar og er nefndur eftir fjöllistamanninum Steingrími Eyfjörð. Upphaflega var Bríó aðeins fáanlegur á Ölstofunni en sló í gegn og er nú seldur mun víðar og fæst einnig í verslunum ÁTVR og Fríhöfninni. WBA eru ekki fyrstu stóru verðlaun sem Bríó hlýtur því nú í vor sigraði hann einnig í stærstu bjórkeppni heims, World Beer Cup, þá í flokki þýskra pilsnerbjóra.

Velkominn landnemi í íslenskri bjórmenningu

Úlfur kom fyrst á markað snemma árs 2011 og er fyrsti bjórinn af gerðinni Indian Pale Ale sem framleiddur er á Íslandi. IPA-stíllinn er einn sá vinsælasti meðal aðdáenda örbrugghúsa um allan heim. Íslendingar tóku enda Úlfi opnum örmum rétt eins og Bríó en báðir þessir bjórar seljast reglulega upp hjá framleiðanda. Sigurvegarar WBA hljóta rétt á orðasambandinu „World’s best…“ á opinberum vettvangi svo Borg Brugghús getur með góðri samvisku haft stór orð um íslensku vinningshafana. Hægt er að lesa umsagnir dómara og fræðast um WBA á vefsíðu keppninnar, Worldbeerawards.

„Þetta er frábær viðurkenning fyrir okkur bruggmeistara Borgar og Ölgerðarinnar sem við erum virkilega stoltir af.  IPA-stíllinn er til að mynda einn allra vinsælasti stíllinn meðal metnaðarfullra brugghúsa beggja vegan Atlantshafsins og keppnin því afar hörð fyrir Úlfinn okkar“ segir Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari.

„Við höfum endalausa trú á félaga okkar Bríó og vitum að hann á ennþá meira inni.  Svo er líka gaman að vita af öllum spældu þýsku bruggmeisturunum sem hafa sérhæft sig í framleiðslu á úrvals pilsnerum í hundruði ára og þurfa nú að horfa á eftir stærstu bjórtitlum heims í þessum flokki fara til Íslands, þar sem menn hafa ekki einu sinni mátt drekka bjór í nema rúm 20 ár.  Þessu ber auðvitað að fagna og við gerum það daglega á Ölstofunni“ segir Skjöldur Sigurjónsson á Ölstofunni.

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt