Bjórsmökkun

3
1248

Bjórsmökkun

Að smakka bjór er ábyggilega eitt af því skemmtilegra sem hægt er að taka sér fyrir hendur.

Fyrir óreinda, þá er kannski bjór bara bjór, en eftir því sem bragðskynið þroskast og farið er að smakka mismunandi bjóra, þá verður bjórinn ekki bara bjór, þá er hægt að finna ýmislegt sem getur komið þægilega á óvart (eða óþægilega, fer eftir hverjum og einum).

Það er einnig mikilvægt að geta myndað sér skoðanir um bjórinn, því með því að spá aðeins út í bjórinn, þá finnur þú e.t.v. þennan eina sanna, finnur þetta sérstaka bragð sem finnst ekki í neinum öðrum bjór og hvað þá að geta lýst því fyrir öðrum.

Við vonum því að upplýsingarnar hér að neðan geti gagnast þér í leit þinni að hinum eina sanna bjór og vonum auðvitað að þú sjáir þér fært að deila því með okkur.

En áður en lengra er haldið, þá er einn galli á gjöf njarðar þegar kemur að því að smakka og ætla sér að gefa bjórum einkunn.

Þegar verið er að smakka, þá vill það oft litast af smekk hvers og eins hversu mikið í einkunn bjórinn fær, kannski var bjórinn þungur Imperial stout og þér líkaði alls ekki vel við bjórinn en bjórinn var samt nákvæmlega eins og stíllinn segir til um, það er því mikilvægt að hafa það á bak við eyrað að, þó svo að þér líki ekki vel við bjórinn, þá er vert að skoða hvort bjórinn samsvarist þeim stíl sem bruggað var eftir og gefa smá rúm þar til að gefa bjórnum hærri eða lægri einkunn eftir því sem við á.

Við erum byrjaðir að útbúa síðu sem heldur utan um alla stílana við munum bæta þar við jafnt og þétt og er hægt að nálgast það hér. Annars er hér listi yfir stílana.

Af gefnu tilefni, þá langar okkur einnig að benda þeim sem takast á við þetta mjög svo skemmtilega viðfangsefni að, við höfum útbúið bjórsmökkunar blöð sem hægt er að nálgast hér.

Hvers vegna erum við að smakka bjór?

Bjór er alls ekki bara bjór, það höfum við sagt og skrifað um ótal sinnum. Bjór er óendanlega fjölbreyttur og er því ekkert annað í stöðunni en að, eins og greinin gefur til kynna, að smakka bjórana, finna út hvað þér líkar, prófa eitthvað nýtt, sjá hvaða bjór passar með hvaða mat og svo mætti lengi telja.

Úrvalið af bjór er svo gífurlegt að það er óhætt að fullyrða að það sé ekki til persóna á þessu jarðríki sem ekki væri hægt að finna bjór við hæfi, en auðvitað, þá er það að gefnu að viðkomandi finni þann bjór og það felur í sér að smakka þangað til.

Að smakka getur líka þroskað bragðlaukana, en það skal þó getið að, það borgar sig að þroska bragðlaukana og það er gert með því að smakka almennt, hvort sem það er matur, drykkur og s.frv. Ilma af mat, kryddi, blómum og s.frv, allt þetta kemur svo saman og þú ferð að mynda þér orðaforða sem mun nýtast þér við að smakka bjór.

En aftur að bjórnum. Bjór getur verið áunninn smekkur, eins og með svo margt annað, stundum er bjórinn ekki alveg að gera sig; fyrsti IPA-inn var kannski svakalegur, ofboðslega bragðsterkur og ekki eitthvað sem þú værir til í að endurtaka, en þú ákvaðst að reyna aftur og vitir menn, hann bragðast alls ekki illa, þriðji er meiriháttar og loks áttu þér nýjan uppáhalds bjór. Púnkturinn; ekki gefast upp þegar verið er að smakka eitthvað nýtt, það getur tekið tíma að þroskast með bjórnum.

Að skipuleggja smökkun;

Þú getur auðvitað skroppið út í næstu vínbúð og keypt þér „bland í poka“, en þá er að skipta þeim niður í það minnsta eftir litrófi, ljósir (þá lagerar nema það sé bara öl, þá ljós ölið fremst) yfir í það dekksta, er þá verið að bera saman eftir týpu og karakter, En ath, ljósir bjórar geta verið bragðsterkastir, þar koma stílarnir inn í.

Í fagmannlegri smökkun, þá er valinn einn stíll og um 10 bjórar úr þeim stíl bornir saman t.d. ef á að velja stout bjóra, þá væri hægt að velja t.d. Gæðing stout, Víking stout, Lava og s.frv. en það verður auðvitað að flokka bjórana eftir undirflokkum t.d. hvort það sé stout eða imperial stout og s.frv. Hægt er að lesa sér nánar til um stílana hér eða hér.

Mikilvægt er að öll glös séu hrein. Svo er að hella rétt í glasið, sjá grein okkar um hvernig á að hella í glas.

Hitastig

Bjór/StíllHitastig
Ljós lager (pale lager)6 – 10°C
Rafgullnir og dökkir lager (amber – dark lager)10 – 13°C
Ljós öl (pale ale)10 – 13°C
Dökk öl og Stout13 – 15°C

 

Glösin

Glös skipta máli þegar verið er að ilma og smakka bjórinn. Sumir vilja meina að brandí glös (sniffters) sé aðal málið og erum við hér á Bjórspjallinu sammála því þar sem okkur finnst það ná best ilminnum úr bjórnum, en það eru líka þeir sem finnst að bjórarnir eigi að drekka úr viðeigandi glösum t.d. eins og hveitibjór glösum og s.frv. hægt að sjá nánar um glösin hér.

Gott er að hafa vatn við hendina til að skola munninn á milli smakks, einnig er gott að vera með spíti skál til að spíta vatni og eða hella bjórnum í ef bjórinn er ekki að heilla þig og eða vilt ekki finna til áfengis vímu þar sem það getur skekkt álit þitt á bjórunum. Einnig er gott að hafa við hendina kex t.d. tekex, eitthvað sem er ekki bragðsterkt, ekki kryddað / saltað og svo framvegis, ekki gott að smakka mikið af bjórum á fastandi maga og það hjálpar líka til að hreynsa bragðlaukana.

Loks er að smakka bjórinn

Ég er mjög sjónrænn maður og því geri ég mér grein fyrir að það eru án efa margir sem eru að lesa þetta sem eru orðnir glaseigðir, til að einfalda hlutina, þá er hér skemmtilegt myndband til einföldunar, en ég hvet auðvitað alla að halda áfram að lesa;

Nú ertu eflaust farinn að fagna, komið að skemmtilega partinum, en ef á að fá rétta mynd af bjórunum, þá þarf að hafa grunn mynd af ferlinu sem bjórarnir fóru í gegnum, allt frá því hvernig malt var notað, karmelu tónar, brendir og s.frv. Humlarnir, hvernig beiskjan er, á bjórinn að vera grösugur, sítrus ilmur og s.frv. Svo eru stundum notuð aukaefni t.d. lakkrís, appelsínubörkur, negull og eða aðrar kryddjurtir og út í gerið sem getur skilið eftir mikinn karakter í bjórnum t.d. öl ger gefur bjór yfirleitt meiri ávaxta keim, hægt er að lesa sér um bjórstílana hér.

Þessu er svo hægt að stjórna með fjóra megin liði; Útlit, ilmur, bragð, áferð og það mætti jafnvel bæta við fimmta liðinum, eða álit. Reyndar er fimmti liðurinn aðeins til yndisauka en það er þó mikilvægt að gefa sitt álit á bjórnum sem verið er að smakka og því höfum við hann með fyrir þá sem vilja.

Útlit

Útlit hefur mikið að segja. Útlitið getur sagt til um hvaða stíl er verið að smakka, „heilsu“ bjórsins. Ekki bera bjórinn að skæru ljósi þar sem liturinn „þynnist“ við það og gefur ekki rétta mynd , best er að hafa bjórinn í dagsbirtu eða við gott stofuljós.

Litróf: Það eru til litróf fyrir hvern bjór stíl (sjá töflu). Litrófið getur sagt til um hvernig malt var notað og aukaefni eins og lakkrís og s.frv. Bjórar sem eru ekki að falla inn í rétt litróf miðað við stíl, það gæti verið að þeir bragðist ekki eins og til er ætlast.

Kolsýringur; Kolýsrungur getur líka sagt til um hversu „heilsusamlegur“ bjórinn er, þ.e.a.s. bjór ætti að halda hálfri kollunni sem kom til að byrja með í það minnsta 1 mínútu áður en hún hverfur, auk þess að skilja eftir „Brussels“ slæðu utan á börmum glassins.

Tær; Hversu tær bjórinn er getur sagt til um margt t.d. ef bjórinn er látinn gerjast áfram í flöskunum, þá er eðlilegt að bjórinn sé skýjaður og stundum ef bjórinn hefur of mikið af ákveðnum prótínum, þá kemur kulda grugg (þegar prótín þéttast við lágt hitastig og skýja bjórinn), hins vegar, ef bjórinn er síjaður og bjórinn er samt skýjaður og jafnvel með grugg hring eða jafnvel eitthvað á floti í bjórnum, þá er eins gott að henda bjórnum.

Litróf bjóra

Hér fyrir neðan er tafla yfir litróf bjóra, má bera þessa töflu við þann bjór sem verið er að smakka og nokkurn veginn áætla hvaða litróf bjórinn fellur í og jafnvel þá taka það fram í bjórsmökkunar púnktunum.

Ilmur / Angan

Það er mikilvægt að spá út í og njóta í hvert skipti sem þú ilmar af bjórnum því eftir ca 4 skipti, þá finnur nefið ekki eins vel ilminn af bjórnum. Það er mikilvægt að smakka alltaf bjóra úr glasi því þú færð aldrei sama ilm úr flösku eins og úr flottum sniffter. Höfum við skipt þessu ferli upp í 3 skref, Ilmur, angan og lykt.

Ilmur: segir mikið til um bjórinn, allt að 95% af öllu því sem við upplifum kemur úr ilminum. Nef og munnur eru samtvinnuð og er því mikilvægt að fá sem mest úr þessu skrefi. Í þessu ferli, þá er hægt að finna fyrir ilmi af korninu og maltinu sem hefur verið notað og er því oftast lýst sem hnetur, sætt, kornað og maltað.

Angan: angan kemur af rokgjörnu efnunum sem koma af humlunum og er oft lýst sem grösugur, sítrus, fura, jurtir, kvoða og krydd.

Lykt; þegar bjórinn er e.t.v. misheppnaður, skemmdur og s.frv. Það er t.d. eitt sem er oftast ekki bruggaranum að kenna, eða þegar bjórinn verður „skúnkaður“ (skunkiness). Þegar bjórinn nær að oxast í sólskíni, þá kemur þessi ógeðfeldur óþefur sem minnir á skúnk. Aðrir óþefir eru t.d. smjör, súlfúr, soðið grænmeti, fiskur, olíur, klór.

Bragðið

Þó ilmurinn segi mikið, þá er bragðið samt sem áður það mikilvægasta af öllu, því við drekkum auðvitað bjórinn. Það er vert að nefna að, ef verið er að smakka meira en 5 – 6 bjóra, þá verður munnurinn nokkuð áttaviltur, sem er eðlilegt og því mikilvægt að hreinsa munninn vel á milli bjóra. Bragð er skipt niður í þrjá hluta, munnfylli, bragð og eftirbragð.

Munfylli: lýsir hvernig bjórinn er í munninum. Hver og einn bjór / stíll hefur ákveðna eiginleika sem sóst er eftir og koma þessir eiginleikar vegna prótína og sykra, er því yfirleitt lýst sem léttur, miðlungs eða mikil. Léttir bjórar eru þeir sem eru ekki með mikið af sykrum og því auðdrekkanlegir, yfir í mikla bjóra sem eru eins og rjómi í munninum, með mikið af sykrum og / eða prótínum.

Bragð: Bragðið er án efa það mikilvægasta og eftirsóttasta í þessu ferli, enda höfuð tilgangurinn fyrir að fá sér bjór. Er þá mikilvægt að bjórinn fari yfir alla tunguna svo allir bragðlaukarnir fái aðnjótandi, er þá vel að merkja á milli humlana og maltsins. Lýsingar gætu verið t.d. maltaður, sætur jarðtónn, svo fer eftir hvort maltið hefur verið ristað, þá gæti verið brent bragð af bjórnum.

Eftirbragð: Þegar bjórnum er kyngt og já, það verður að kyngja bjór, því annars færðu ekki rétta mynd af bjórnum, því aftast á tungunni eru bragðlaukar sem skynja hvað best beiskju og er það einmitt það sem verið er að leitast eftir, hvort bjórinn skilji eftir mikla beiskju eða hvort hann hafi horfið eins og dögg fyrir sólu.

Áferð

Áferð er t.d. hvernig hann kom við tunguna / munnholið, var mikil sýra, hvernig lýsiru gosinu (sodastream, venjuleg og s.frv.), var kokið þurrt eftir að bjórnum var kyngt og s.frv.

Upplifun / álit

Það er mjög gott og jafnvel mikilvægt að staldra við og spá út í hvernig bjórinn var; er þetta bjór sem þú myndir vilja smakka aftur, var eitthvað sem þér fannst skemmtilegt við hann og eða öfugt. Kallar bjórinn á annan sopa eða er hann þrúgandi.

Bjórinn gæti verið allt sem hann á að vera þ.e.a.s. eftir stílnum og s.frv. og fær 10 í einkunn, en kannski langar þig ekki að smakka hann aftur því hann var ekki fyrir þig, það myndu e.t.v. einhverjir vilja fara eftir, því margir hafa svipaðan smekk.

Hvernig svo sem þessu er öllu háttað, þá er þetta alls ekki tæmandi leiðbeiningar, hægt er að bæta miklu meira við þessa grein, en þetta er þó grunnurinn að bjórsmökkun og má vera að ekki allir bjóráhugamenn séu sammála öllu sem við höfum skrifað hér um þetta málefni, viljum við þá auðvitað heyra hvað öðrum finnst og þá e.t.v. stækkar viskubrunnurinn til muna.

Við hvetjum þó alla að þegar verið er að smakka, að njóta þess og auðvitað er ekki heilagt að fara eftir öllu sem við höfum rætt hér að ofan, enda eru þetta bara leiðeiningar og hver og einn mun án efa koma upp með sinn eiginn umfjöllunar stíl og er um að gera að prófa sig áfram með það, mikilvægast er, að hafa þetta létt og njóta vel.

Heimildir;
http://www.alabev.com/taste.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Standard_Reference_Method

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt