Bjórblandaður ferðaþáttur hefur göngu sína

0
70

Á næstu fjörum vikum mun undirritaður ferðast um landið ásamt eiginkonu sinni, kynnast landinu og heimsækja öll handverksbrugghús landsbyggðarinnar. Við höldum úti Facebook síðunni Bruggland þar sem daglega birtast myndir og video af ferðalaginu auk þess sem við tökum upp þætti sem fara í birtingu á síðunni eftir að ferðalaginu líkur. Hvert brugghús mun fá sinn eiginn þátt og þættirnir að auki kryddaðir með öðru efni úr ferðalaginu.

Við hjónin höfum nú verið á ferðinni í rétt rúma tvo sólarhringa. Móttökurnar sem við höfum fengið hafa hingað til verið svo höfðinglegar að ég hef ekki haft tíma til að setjast niður til að skrifa ferðafærslu fyrr en nú.

En við lögðum af stað úr Reykjavík á þriðjudag og brunuðum beint í brugghúsið Ölvisholt sem er eitt elsta handverksbrugghús landsins. Þar tók hún Ásta bruggari á móti okkur, leiddi okkur í gegnum húsið og sögu þess áður en hún lagði á borð fyrir mig 9 mismunandi bjóra. Ég gætti þess að sjálfsgögðu að klára ekki úr glasi (því miður) og drekka vel af vatni. Marzibil sá svo um að keyra á næsta stopp. Nánari útlistun á heimsókninni verður birt síðar.

Þegar við höfðum þegið nesti og þakkað kærlega fyrir höfðinglegar móttökur renndum við rakleitt upp á Hótel Geysi (við þurftum reyndar að taka pissustopp á leiðinni). Þar tók Andrés Már viðburðastjóri Hótel Geysis á móti okkur sýndi okkur hið nýja og glæsilega hótel og fræddi okkur aðeins um sögu þess áður en hann leiddi okkur á glæsilegt hótelherbergið sem þau höfðu af myndarskap ákveðið að bjóða okkur upp á. Við töltum aðeins um svæðið og fengum okkur að lokum kvöldverð á glæsilegum veitingastað hótelsins. Hótelið er eins og áður sagði allt hið glæsilegasta og greinilegt að vel  hefur verið vandað til verka að öllu leyti. Það er íburðarmikið og rúmgott en lætur nánast ekkert fyrir sér fara í stórbrotinni náttúrinni þannig að það truflar með engu móti upplifunina þegar rölt er um svæðið.

Eftir góðan nætursvefn fengum við okkur morgunverð af stórglæsilegu morgunverðarhlaðborði, sem skartaði öllu sem hugurinn girnist, áður en við hittum hann Kristján sem fræddi okkur um húsbjórinn þeirra sem bruggaður er hjá Ægir Brugghús í Reykjavík. Við héldum svo sem leið lá í Friðheima þar sem feðginin Dórótea og Knútur tóku ótrúlega vel á móti okkur. Sögðu okkur sögu Friðheima og buðu okkur upp á dýrindis hádegisverðarveislu. Við smökkuðum að sjálfsögðu hina margrómuðu tómatsúpu, tómatpasta og svo auðvitað tómatbjórana tvo sem einungis fást hjá þeim (einnig bruggaðir hjá Ægir Brugghús). Við vorum svo leyst út með glæsilegri gjafakörfu sem kemur sér vel á ferðalaginu.

Þar næst var brunað beint upp í Laugarvatnshella þar sem við heimsóttum hellisbúana Smára og Magnús. Smári fræddi okkur um búsetu í hellunum en það var búið í þeim til ársins 1922. Það ár fæddist barn í hellunum í síðasta skipti og lifði til 2013. Síðasti hellisbúi Íslands lést sem sagt árið 2013. Það er alveg klikkað! Við slæddumst svo framhjá Laugarvatni og litum við í Efridal áður en við enduðum kvöldið á tjaldsvæðinu Skjóli rétt norðan við Geysi.

Með kveðju frá okkur Brugglendingum
Ársæll S. Níelsson

Þessi pistill birtist upprunalega á Facebook síðu Brugglands

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt