Bjór og ostakvöld II

0
273

Eins og alltaf ef ég ætla mér að dekra mig með ostum kíki ég í heimsókn í Búrið til Eirnýjar. Búrið er staðsett í Nóatúni, www.burid.is. Núna fór ég kaupa bara osta sem mig langaði í og fór svo í Vínbúðina og keypti jafnmarga bjóra, en magn var nægilegt til að smakka í kross líka. Í þetta skiptið endaði ég með 6 osta og reyndar 7 bjóra.

Ostarnir voru hinn ítalski Pecorino Nero frá Piedmont. Pecorino Nero er harður ostur úr kúamjólk, mjög skemmtilegur, hnetukeimur, jurtakenndur og nokkuð saltur. Fengum svo Valhnetu Gouda eins og síðast, nú var parað betur með honum. Valhnetu Gouda er fastur kúamjólkur ostur og eins og nafnið bendir á er skemmtilegt hnetubragð af honum, sömuleiðis karamella og áhugaverð rjómakennd fylling. Einn af mínum uppáhalds, Emmenthaler og vorum við það heppin að fá hann með þó nokkrum aldri. Frábær, fastur ostur úr kúamjólk, grösugur, þurrkaðir, sætir ávextir og mondlur. Boltinn frá Lille, Mimolette kom svo. Harður kúamjólkur ostur sem var eins og besta fjós. Gríðarlega „fönkí“ ostur sem kom mér hrikalega á óvart. Æðislega rjómakenndur, ógeðslega appelsínugulur, en ég hugsa bara um fjósið! Tveir franskir ostar í viðbót enduðu svo kvöldið. Fleur d´Aunis frá Charentes-Poitou, er mjúkur rauðkítts ostur með þéttri skorpu. Kúamjólkur ostur sem er burstaður með koníaki sem gefur skemmtilegt reykt bragð, sveppir og hnetu og yndislega smjörkennda fyllingu. Blámygluostar eru svo alltaf nauðsynlegir og fékk Fourme d´Ambert að fljóta með. Þar enduðum við á mjúkum kúamjólkurost, „illa“ lyktandi með sveppa- og ávaxtaást.Bjórarnir enduðu eiginlega í þema. Tilburg´s Brown Ale frá La Trappe, Móri frá Ölvisholti, La Trappe Bock, tveggja ára La Trappe Dubbel, La Trappe Isid´or, Fuller´s 1845 og Old Foghorn frá Anchor brugghúsinu í San Francisco. Ég gæti notað afrit úr eldri færslum um suma bjórana.

Auglýsing

Tilburg´s Dutch Brown Ale er bjór frá Brouwerij Koningshoeven, sem flestar þekkja fyrir La Trappe bjórana frábæru en hann er þó bruggaður fyrir Bavaria sem hluti af þeirra línu. Bjórinn er erfitt að festa undir ákveðnum stíl. Brown Ale í nafninu tengir hann mikið við bresk brúnöl en hann hefur lítil tengsl við þá í raun. Stílnasistar internetsins reyna flestir að stílfæra bjórinn, sem Belgian Dark Ale (eins og Leffe Brune), Belgian Brown Ale, Oud Bruin, Other Belgian Styles og ég veit ekki hvað og hvað. Það sem þarf að vita er að þarna er heitgerjaður/yfirgerjaður drykkur, með góðu malti, sætu, þægilegri kolsýru og núggat, rúsínum og ávexti ef maður leitar. Tilburg´s var tekinn með sem bjórinn með Pecorino Nero í þetta skiptið. En byrjum á byrjun. Með Valhnetu Gouda stóð hann sig vel, bjórinn og osturinn voru flauelsmjúkir saman og jafnvægið mjög gott. Sama gerði hann með Pecorino Nero en ýtti undir undirliggjandi hnetu ostsins. Besta pörunin var með Emmenthaler, frábær pörun í flottu jafnvægi og einhver kakó/súkkulaði keimur kom fram í munninum sem var ekki leiðinleg. En svo fór að halla undan fæti, ostarnir einfaldlega of miklir. Mimolette fjósaði bjórinn í drasl og síðustu tveir einfaldlega keyrðu bjórinn niður.

Móri var með Emmenthaler en það var líklegast pörunin sem keypti mig. Móri er stórskemmtilegt rauðöl frá Ölvisholti og er deilt um hvort það sé meira í átt að bresku eða bandarísku, langt frá hinu írska. Humlasamsetningin gerir hann að bresku rauðöli, en það er spurning með bragðið. Móri er einfaldlega einn af mínum uppáhaldsmatarbjórum en hann er stórkostlegur með nær öllum grillmat, kjötveislum, hamborgurum, pitsum, bara hreinlega ótrúlegustu hlutum. Kvöldið þegar hann tók stórkostlegan bolta frá St. Emillion í nefið með lambalæri er mér alltaf eftirminnilegt. Hann byrjaði ekkert sérstaklega um kvöldið. Valhnetu Gouda og Móri virtust bara drepa hvorn annan niður á meðan Pecorino Nero og Móri voru ekki sammála neinu. En Emmenthaler og Móri… þvílík unun. Ávöxturinn, jörðin og jörðin og moldin og kakó alveg sprungu út. Mimolette kom svo mjög stutt á eftir, veit ekki hvor var betri pörun og það kom mér virkilega á óvart. Fjósið í ostinum og „skítuga“ maltið og jörðin í bjórnum voru sammála allt kvöldið. Æðislegt! Svo fór þetta aftur niður þegar Fleur d´Aunis lenti í smá árekstri við bjórinn og Fourme d´Aubert og Móra pörunin var bara einfaldlega ógeðsleg.

La Trappe Bockbier. Gleymi alltaf hvað þessi er góður þar til ég smakka hann aftur. Rosalega skotinn í þessum bjór. Frábær bjór sem munkarnir í Koningshoeven hafa bruggað síðan 2004 og frábær með mat. Svínakjötið, hamborgarinn – frábært að nota bjórinn í buffið, skella smá ostaklumpum með og troða vel af drasli á borgarann og þá passar hann ennþá betur. Lambalæri, lambalundir, minni villibráðin. En hvernig stóð hann sig með ostunum? Hann kom með í kvöld fyrir Valhnetu Gouda og ég sá ekki eftir því. Þurrkaðir ávextir og serrí fékk stera með bjórnum og var það flott pörun. Hann virkaði með Pecorino Nero, en samt ekki… þetta var mjög spes hvað var að gerast og ég hreinlega kann ekki skil á því. Bjórinn var svo stórkostlegur með Emmenthaler, maltsprengjan og ristunin var alveg sammála ostinum. Sultaðir ávextir, kakó og fleiri góðgæti varð greinilegra og var það besta pörunin hjá Bockbier. Mimolette virkaði, fékk svona serrítóna en alkóhólið varð greinilegra. Þó ekki yfirþyrmandi. Fleur d´Aunis var bara flauelsmjúkur með bjórnum og Fourme d´Amber góður, en lítið að segja frá þessum tveimur.

La Trappe Dubbel, „runninn út og ógeðslegur“. Dubbel hefur fæðingarárið 1987, sem og Tripel, í núverandi mynd. Bjórinn sem við vorum með var eins og púðursykursprengja, með karamellu og dökkum, þurrkuðum ávöxtum. Hefði alveg viljað leggja hann með villibráð eins og gæsabringum. En með ostunum var hann ekkert lélegur. Fyrstu tveir, Valhnetu Gouda og Pecorino Nero hurfu reyndar og Emmenthaler átti í bullandi vandræðum en hélt þó jafnvægi. En þá kom ein besta pörun kvöldsins. Dubbel og Mimolette var hreinn unaður. Þvílík blanda af appelsínu og karamellu kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og jafnvægið, flauelismjúkt jafnvægið… Með Fleur d´Aunis var hann mjög mjúkur og rjómakenndur og gaf okkur vott af fjósi í þeim bjór. Dubbel og Fourme d´Amber var svo mjög áhugaverð en eitthvað sem ég gæti ekki fengið mér mikið af.
La Trappe Isid´or. Ást við fyrstu sýn hjá mér. Stórkostlegur belgian strong pale ale frá hollenska Trappista brugghúsinu Koningnshoeven. Bjórinn var bruggaður til að minnast 125 ára afmælis brugghússins og heitir í höfuðið á fyrsta bruggmeistara Konginshoeven, Faðir Isidorus. Með því að kaupa þennan bjór styrkir maður starf klaustursins í Úganda. Fyrstu þrír gerðu lítið, ef eitthvað með þessum. En fönkið í gerinu og Mimolette, ég held bara að Mimolette hafi verið ostur kvöldsins. Fjósið virkaði í fullkomnu jafnvægi með þurrkuðum, ljósum ávöxtum bjórsins, einstaklega mjúkt og ljúft og unaðslegt í alla staði. Fleur d´Aunis var svo flottur, mjög þægilegur og mjúkur, en Fourme d´Amber átti ekki sitt kvöld heldur með Isid´or.
Næst síðastur var 1845 frá Fuller´s. 1845 er afmælisbjór Fuller´s þegar að þeir fögnuðu 150 ára afmæli brugghússins, en hann var fyrsti flöskugerjaði bjórinn í langan tíma. Ég ætlaði fyrst að taka Golden Pride, sem er mjög ostavænn en ákvað, þar sem hann var ekki til, að grípa bara 1845. Það hefði ég betur látið ógert en þetta voru ekki ostar fyrir 1845, en ég held að hann sé frekar kjötbjór. 1845 er yndislegur með grísarifjum. Besta pörunin var þó með Fleur d´Aunis, þar sem bjórinn ýtti vel undir smjör og rjóma ostsins og var þægilegan mjúkur með. Taka verður með að hann var aðkomumaðurinn hér og hefði sómað sig mun betur með stórum, flottum, breskum Cheddar! En góður er hann með kjöti…

Síðast var byggvínið Old Foghorn. Hér erum við með amerískt byggvín, það eina sinnar tegundar í Vínbúðinni ef ég man rétt. Byggvín fást í bæði breskum og amerískum búningi og er sá ameríski eins og Bandaríkin vilja oft vera, einfaldlega „stórastur“. Þetta er mjög humlaður, maltaður og bragðmikill bjór með áfengismagn um og yfir 10%. Humlarnir eru algjörlega í aðalhlutverki og eru þetta bjórar sem þola langa geymslu ef maður hefur áhuga. Þetta eru ekki mjög matarvænir bjórar, þó þeir geri sitt með t.d. gæsa lifur og þess konar mat, þá er þeim bara sóað nema með ostum. Stórkostlegir ostabjórar – góðum blámygluostum, gömlum geitamjólkurostum og kannski skörpum Cheddar. Athyglivert var að á síðasta smakki voru Valhnetu Gouda og Old Foghorn smakkaðir saman og þá „..Gouda náði þó jafnvægi með honum en bjórinn var í of miklu aðalhlutverki..“ en nú, skv. punktunum mínum, virkaði hann betur, þar sem þurrkaðir ávextir voru dregnir fram og jafnvægi var flott. En næstu fjórir gengu engan vegin með Old Foghorn, Fleur d´Aunis var í lagi og blámygluosturinn var flottur með Old Foghorn eins og búast mátti við.

Versta pörunin verður að fara til Móra og blámyglunna eða 1845 og blámyglunnar. Ostur kvöldsins var klárlega Mimolette, sér í lagi með Dubbel og Isid´or frá La Trappe, Móri sömuleiðis og svo Móri og Bock-inn með Emmenthaler.

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt