Bjór og Ostakvöld I

0
303

Fór í Búrið um daginn. Hún Eirný tók vel á móti mér, alltaf frábært að fara í Búrið. En nú átti sko að kaupa osta. Ég hafði sest niður um daginn og velt þessu aðeins fyrir mér. Ég var með bjór, sem mig langaði rosalega mikið að opna með góðum bita af ost. Smakkinu stýrði ég svo þannig að ég fann annan bjór sem hentaði þessum ost, þá annan ost sem hentaði þeim bjór o.s.frv. 6 eðalbjórar og 5 illa lyktandi ostar voru skrifaðir á blað. Því miður var ég aðeins of snemma í mánuðinum og fékk ekki einn ostinn, en hún Eirný fékk þá bara að velja einn góðan af handahófi.

Fuller´s Vintage Ale 2008 var bjórinn sem þetta snerist um, byggvínið Old Foghorn frá Anchor fékk að vera með, sömuleiðis gerði ég ráð fyrir belgískum Dúbbel, Tripel og Quadruppel/Belgian Strong Dark Ale og þar sem að ég var svo heppinn að eiga einn Chimay Blue 2009, einn Brune og einn Tripel, ákvað ég að hafa með alla Chimay línuna og endaði svo á að hafa Úlf frá Borg líka, enda eru þeir bjórar smakkaðir með öllu núna.

Auglýsing

Af ostum var ég með einn góðan gráðaost og fékk hjá Eirný Bleu d´Auvergne, mjög mjúkur, kremaður og bragðflókinn blámygluostur. Eitraður Gorgonzola, sem var eins og klessa en alveg stórkostleg. Borðuðum hana með skeið en þetta var sko góður Gorgonzola, bragðmikill, sterkur ilmur og meira en opinn fyrir pörunum. Elsass kúamygluosturinn Munster Géromé var svo þriðji. Gríðarleg táfýla af þessum ost, en eins og það hljómar illa var hann þeim mun betri. Red Leicester, enski, harði kúamjólkurosturinn kom svo fjórði og mæli ég með að smakka þennan ost með t.d. góðum enskum Bitter. Eirný valdi svo þann fimmta ofan í okkur, hollenskan Gouda með valhnetum. Afbragðs ostur sem hentar gríðarlega fyrir þá sem leggja ekki alveg í þessa stóru en vilja samt bragðmikinn ost, valhneturnar gera líka helling fyrir ostinn.

Fyrst opnuðum við Úlf. Þarna erum við amerískan IPA, en IPA skiptist að öllu jöfnu í þrjár týpur (taki maður ekki þá tvöföldu með), amerískan, breskan og belgískan. Tveir fyrrnefndu lang algengastir. Í amerískum IPA má búast við miklum ilm og góðum biturleika. Ilmur (og bragð) getur verið greip, barrnálar, sítrus – í raun rosalega skær á bragðið. Úlfur er einmitt stórfínt dæmi um þægilegan, matarvænan IPA. Hann meira að segja stóð sig vel yfir Evróvisjón gegn grilluðu nautainnanlæri, einungis krydduðu með salti og pipar og kaldri piparsósu. En þá hvernig hann stóð sig gegn ostunum. Smá villa í byrjun og Munster Gerome var smakkaður fyrstur en ekki Red Leicester eins og rökrétt er. Úlfur og Munster var fín pörun. Hún móðgaði ekki neinn, en einkenni hvors um sig runnu eilítið saman. Þá var það Red Leicester, þar sem að aftur var fín pörun og hið skæra sumarlega bragð Úlfs náði fram hnetu keim úr ostinum. Hollenska Goudan aftur á móti gerði ekki sömu gloríur þar sem að beiskja Úlfs einfaldlega yfirgnæfði ostinn. Fjórði osturinn, Gorgonzola sneri dæminu við og lét bjórinn hverfa, en ef maður leitaði fann maður góða harmoníu og með bragðminni Gorgonzola væri þetta eflaust flott pörun. Bleu d´Auvergne og Úlfur lifa svo í sátt og samlyndi, þar sem mýkt pörunarinnar ræður.

Chimay Brune var svo opnaður. Þarna erum við með góðan belgískan dúbbel. Í dag eru tveir svoleiðis í sölu í Vínbúðinni með Brune, einn nýhættur í sölu, og eru bæði dæmi afbragðs góð. Brune fæst reyndar bara einungis í gjafaöskju ef ég man rétt. Hinn að sjálfsögðu La Trappe Dubbel. Í belgískan dúbbel er notað dúbbel (tvöfalt) magn af malti. Þetta eru nær alltaf dökkir bjórar, brúnir, með stórkostlegan karakter frá hinu frábæra belgíska geri, flæðandi í esterum (sem eru efni sem gerið gefur frá sér og er ástæðan bakvið t.d. margt ávaxtabragð í bjór – esterinn isoamyl acetate er efnið sem gefur banana bragð í þýskum Hveitibjórum). Í belgískan dúbbel er svo oft bætt út í einhvern veginn sykri, belgískum rófusykri, dökkum púðursykri o.s.frv. og einhvern tímann las ég að einn af Chimay munkunum viðurkenndi að þeir notuðu örlítið Curaçao berki í Brune og Bleu. Belgískur dúbbel er stórkostlegur matarbjór, sérstaklega með góðu rauðu kjöti.

Red Leicester og Chimay Brune virkuðu vel saman, þar sem að jarðar- og sveitatónar hvoru tveggja fengu að njóta sín og skína í gegn. Hollenska Gouda er flott pörun sömuleiðis þar sem súkkulaði og þurrkaðir ávextir fá meiri athygli en þegar bjórinn er einn og sér. Munster Gerome gerir það sama með þurrkaða ávexti bjórsins. Gorgonzola er aftur á móti heldur stór biti fyrir bjórinn. Bjórinn á í fullu fangi með að ráða við ostinn og rétt gerir það en öll orkan fer í það og lítið annað að gerast. En Blue d´Auvergne er aftur á móti sáttur við þann tvöfalda og ná bæði bjór og ostur að ýta undir kosti hins og því stórfín pörun.

Chimay Tripel var næstur. Tripel er eins og flestir kveikja á þrefalt maltaður bjór. Tripel bjórar koma reyndar inná milli með djúp gylltan lit, vel gosaðan, sveitalegan bjór. Eins og með Dúbbel, þá er gerið alls ráðandi og gefur þannan sveitalega takt en rosalega misjafnt er hversu ávaxtaríkir þessir bjórar eru. Til að mynda er La Trappe Tripel með gífurlegan flottan appelsínukeim, á meðan bæði þessi og De Koninck Tripel gefa minna fyrir ávöxtinn. Tripel er oft með kryddaðan keim, oft eins konar kryddaðan ávaxtakeim ef ávöxturinn er greinilegur. Tripel eru frábærir bjórar með heilsteiktum kjúkling, kalkún og fleiri fuglum, sér í lagi þegar að þeir eru krispí eða villtir og vel „sveitakryddaðir“. Réttir með pestó og basilikku ganga vel, pylsur og t.d. quesedillas jafnvel.

Chimay Blanche byrjaði ekki vel, en Red Leicester og hann áttu enga samleið. Gouda gekk aðeins betur og var þar fín pörun en bjórinn toppaði með Munster Gerome sem var bara eins og sveit í glasi. Flott pörun þar. Sá þrefaldi og Gorgonzola virkaði vel, þar sem að eftirbragðið var frábært, aftur þessi sveitataktur í aðalhlutverki. Blue d´Auvergne var svo síðastur og endaði þetta því á nokkuð slakri pörun. Þannig séð virkaði en ekkert að gerast.

Old Foghorn var svo tekinn næstur. Hér erum við með amerískt byggvín, það eina sinnar tegundar í Vínbúðinni ef ég man rétt. Byggvín fást í bæði breskum og amerískum búningi og er sá ameríski eins og Bandaríkin vilja oft vera, einfaldlega „stórastur“. Þetta er mjög humlaður, maltaður og bragðmikill bjór með áfengismagn um og yfir 10%. Humlarnir eru algjörlega í aðalhlutverki og eru þetta bjórar sem þola langa geymslu ef maður hefur áhuga. Þetta eru ekki mjög matarvænir bjórar, þó þeir geri sitt með t.d. gæsa lifur og þess konar mat, þá er þeim bara sóað nema með ostum. Stórkostlegir ostabjórar – góðum blámygluostum, gömlum geitamjólkurostum og kannski skörpum Cheddar.

Aftur byrjaði Red Leicester illa en það var skelfileg pörun. Gouda náði þó jafnvægi með honum en bjórinn var í of miklu aðalhlutverki. Sama með Munster Gerome. En með Gorgonzola fórum við að tala saman. Ljúfur ávöxturinn lak saman við rjómakennda munnfyllinguna. Stórvel heppnuð pörun, þar sem ostur og bjór unnu að hlutunum saman. Blue d´Auvergne var flott pörun sömuleiðis en þar vorum við með bjór og ost sem voru að keppast um athyglina. Þá kunni ég betur við að para bjórinn með Gorgonzola.

Chimay Blue. Chimay Blue er yfirleitt flokkaður sem svokallaður „Belgian Strong Dark Ale“, sumir segja þó að hann sé quadruppel. Ég man ekki eftir að hafa séð neina sönnun frá munkunum að hann sé fjórmaltaður, þetta var ekki hluti af línunni þeirra heldur var hann bruggaður sem jólabjór á sínum tíma, þess vegna er hann merktur með árgang. En hvernig sem það er, hvort sem hann er BSDA eða Quadruppel, þá er afar fín lína á milli þessara stíla og jafnvel spurning hvort hún sé nokkur ef ekki er horft á möltunarfjölda. Stórir og miklar, ávaxtaríkir, maltaðir bjórar með margbreytileika sem maður má búast við úr allra flottustu herragarðsvínum Bordeaux. Oftar en ekki í kringum 10% áfengisrúmmál sem gerir þá frábæra með ostum og eftirréttum en þetta eru líka stórkostlegir matarbjórar, sér í lagi með villibráð. Ég var eitt sinn svo heppinn að vera með smá keppni í gangi við matarborðið, þar sem fersk gæsabringa með lakkríssósu fékk aðstoð frá annars vegar Cape Mentelle Shiraz 2004, stórkostlegur ástralskur Shiraz sem ég mæli hiklaust með og hins vegar Chimay Blue. Vinið þurfa allir einhvern tímann að smakka, en hvern hefði grunað að með „skotheldri“ vín/matar pörun væri líka til bjór sem einfaldlega gerði mann orðlausan líka?

En hvernig stóð hann sig með þessum ostum? Red Leicester og Munster Gerome mættu ofjarli sínum þetta kvöld en Gouda gerði góða atlögu að bjórnum þar sem að eftirbragðið af þeim saman var skemmtilegt. Renna einhvern veginn saman í burtu. En þá var komið að alvöru leikmönnum. Gorgonzola Eccelenza og Chimay Blue var stórkostleg pörun! Jafnvel guðdómleg. Um leið og þessi kom vissum við að þarna væri ein af pörunum kvöldsins var komin. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa því, heldur skora ég bara á ykkur að prófa þetta! Með Bleu d´Auvergne kom hann flottur, þar sem ávöxtur og súkkulaði voru dregin fram af ostinum, en, það kom einhver smá saltkeimur með, sem kom líka með Chimay Blanche og Úlf með þessum ost fyrr um kvöldið. Ef það hefði ekki verið, værum við að tala um heimsklassa pörun. Þó, þar sem að þetta var ekki að angra mann, heldur meira bæta við margbreytileikann þá var þetta alveg glæsileg pörun.

Þá er það bjór kvöldsins. Fuller´s Vintage Ale 2008. Vintage Ale er lokaverk fyrrverandi bruggmeistarans Reg Drury. Vintage Ale er byggður á öðrum bjór Fuller´s sem heitir Golden Pride og er enskt byggvín. Það sem Reg vildi gera með þessum síðasta bjór var að framleiða bjór til geymslu. Í hann fer alltaf það hráefni sem fékk hæstu einkunn á því ári. Í 2008 var notað Challenger og Northdown humlar og Maris Otter malt, einungis 145.000 flöskur framleiddar og var þessi árgangur í höndum John Keeling, núverandi bruggmeistara. Þetta er bjór sem ég mæli hiklaust með allir prófi. Bara ef fyrri skilaboð komust ekki í gegn, endilega prófaðu þennan!

Við byrjuðum reyndar kvöldið á að smakka þennan með bragðskyn í lagi. Og þvílíkur unaður. Hann hefði alveg þolað mun lengri geymslu en mýktin og margbreytileikinn var frábær – orðlaus! En svo tókum við hann aftur fram til að prófa með ostunum. Red Leicester og Muster Gerome, eins og með Chimay Bláum, áttu aldrei séns og eiginlega sóun á góðum ostum. Gouda var svo fín pörun í augnablik en bjórinn var alltof mikill og var mjög fljótlega búinn að hertaka bragðlaukana mína. Þá er það Gorgonzola. Þetta hefði ég viljað gera í allt kvöld, osturinn leysti allt af stað í bjórnum, ávexti, appelsínu mermelaði, kandís og ég veit ekki hvað og hvað. Blue d´Auvergne var svo frábær pörun. Mjög bragðmikil, bæði ostur og bjór urðu meiri og mikilfenglegri og dansaði á mörkum þess að verða yfirþyrmandi.

Í heildina gríðarlega flott smakk. Fyrir mér var Gorgonzola besta pörunin, hvort sem er var með Vintage Ale eða Chimay Bláum en Red Leicester og Old Foghorn voru að ég held versta pörunin. Mæli með að allir sem hafa áhuga finni næstu Vínbúð og fái aðstoð, ef mögulegt, við val á bjórum og kíki svo á Eirný í Búrinu til að fá hjálp með ostana.

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt