Bjór í Eyjum og Vík

0
49

Ferðalag okkar um landið hefur haldið áfram þrátt fyrir að lítið hafi borið á pistlaskrifum. Þeytingurinn hefur einfaldlega verið slíkur að lítill tími hefur gefist til að birta pistil. Við höfum þó verið dugleg að taka myndir og skrásetja ferðina. Þannig að ég ætla sem snöggvast að koma með smá uppfærslu á þeim dögum sem ekki hefur verið skrifað um. Ætla þó ekki að skrifa um alla síðustu viku að sinni enda betra að dreifa álaginu aðeins þar til ég kemst á réttan kjöl.

Fimmtudaginn 9. Júlí

Vöknuðum á tjaldsvæðinu Skjóli rétt norðan við Geysi. Ég hellti upp á útiegukaffi og við brunuðum af stað. Slíkur var asinn að við gleymdum tjaldborði. Ef einhver finnur það þá kemur það vonandi að góðum notum. Við keyrðum sem leið lá í gegnum Flúðir og niður á þjóðveg 1. Stutt kaffistopp á Hellu en þar sem við vorum búin að gera boð á undan okkur á Vík í Mýrdal þá  ákváðum við að fara bara beint þangað og njóta dagsins.

Fyrsta stopp var Smiðjan. Nýlegur veitingastaður og brugghús á besta stað í bænum. Smiðjan opnaði sem veitingastaður og craft-bar fyrir tveim árum. Fyrir ári síðan opnaði svo brugghúsið. Þórey stóð sveitt í eldhúsinu og steikti hamborgara af miklum móð á meðan Svenni var fyrir innan að koma bjór á dósir. Veitingasala sumarsins hafði farið fram úr vonum og gaman að sjá hve margir íslendingar voru á ferðinni. Á meðan við biðum eftir að þau hefðu tíma til að spjalla við okkur settumst við niður við vinnu og var boðið í mat. Þar fengum við einhverja bestu glóðarsteiktu hamborgara sem við höfum smakkað. 180gr kvikindi með geðveikum sósum og úrvals frönskum. Skoluðum þessum niður með strangheiðarlegum Pilsner sem þau kalla Rennslip. Þórey sá ekki til sólar fyrr en seint um kvöld en hann Svenni náði að gefa sér smá tíma í spjall og smakk. Ég birti frekari útlistun á því síðar og svo fer auðvitað þáttur um heimsóknina í loftið í haust.

Við römbuðum svo aðeins um þorpið og skoðuðum okkur um á meðan við nutum veðurblíðunnar áður en við skoluðum af okkur í sundlaug bæjarins. Eftir léttan bita á Smiðjunni komum við okkur fyrir á glæsilegu tjaldsvæði þeirra Mýrdælinga.

 

Föstudagur 10. Júlí

Við vöknuðum í einmuna blíðu og þurftum því miður að keyra fljótt af stað. Stefnan tekin til baka vestur því við áttum bókað í Herjólf klukkan 10. Útsýnið fallegt og Eyjarnar tóku vel á móti okkur. Eftir snögga lautarferð í Herjólfsdal bönkuðum við upp á hjá The Brothers Brewery þar sem Hlynur tók vel á móti okkur. Hópurinn sem stendur á bak við brugghúsið hefur komið upp glæsilegri bjórstofu þar sem gestir og gangandi geta komið og notið úrvals bjórs í rólegheitum. Allt alveg skínandi fínt og mjög hlýlegt og skemmtileg stemmning. Bjórlistinn var glæsilegur en það var mat okkar hjóna að Óskar (sjómannadagsbjór ársins) hafi staðið upp úr.

Við skelltum okkur svo í hadegismat á Pizza 67 þar sem undirritaður fékk gæsahúð af nostalgíu. Við rákumst svo á mótohjólatöffara, meðlim í MC Drulllusokkar. Hann Addi Steini eins og hann er kallaður bauð mér með í snöggan túr um Heimaey. Keyrði með mig frá höfninni og upp að Stórhöfða á tíma sem ekki er við hæfi að segja frá. Þegar ég hafði róað taugarnar með léttum sumarbjór hjá The Brothers töltum við niður á bryggju og skelltum okkur í siglingu með Ribsafari.is. Klukkutíma sigling á Rib bát umhverfis Eyjarnar var alveg mögnuð upplifun og eitthvað sem allir verða að prófa.

Svo brugðum við okkur í léttan kvöldverð á veitingastaðnum Slippurinn þar sem við brögðuðum 3 smárétti sem voru hver öðrum betri. Fiski chido, Þorsk “vængir” og svartfuglsegg. Virkilega skemmtilegur staður og matseðillinn á heimsmælikvarða. Mikil natni lögð í að nota hráefni úr Eyjunum. Við tókum svo einn sjómannadagsbjór í kveðjuskyni á The Brothers áður en við skunduðum í Herjólfsdalinn þar sem við vorum búin að koma okkur upp næturstað.

Laugardagur 11. Júlí

Dagurinn hófst með smá dekurmorgunmat beint úr bakaríi til að hlaða batteríi fyrir Sprönguna. Náðum að taka snöggt stopp þar (það voru einhverjir krakkar þarna á undan sem töfðu okkur) áður en við þurftum að drífa okkur í bátinn og aftur upp á land. Þetta var auðvitað algjör bilun því það er algjör synd að fara til Eyja og stoppa bara í sólarhring. En nóg eftir að skoða og sjá uppi á landi.  Þegar í land var komið gáfum við okkur tíma til að kíkja á Gljúfrabúa, Seljalandsfoss og Reynisfjöru áður en við héldum áfram austur að Kirkjubæjarklaustri. Þar stóð til að taka sundstopp en haugur af Reykvíkingum hafði klárað allt heita vatnið þannig að við létum duga kaffistopp á Munkaklaustri áður en  við héldum áfram upp í Skaftafell í dýrindis þriggja rétta útilegu kvöldverð sem samanstóð af núðlum, pönnusteiktri samloku og afgangsbakkelsi úr Eyjum.

Ég reyni svo á morgun að birta smá ferðasögu af dögunum tveim sem fylgdu. En á sunnudeginum heimsóttum við tvö brugghús.

Með kveðju frá okkur Brugglendingum
Ársæll S. Níelsson

Þessi pistill birtist upprunalega á Facebook síðu Brugglands

 

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast skráðu athugasemd þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafn þitt